Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

48 dagar á strandveiðum verði festir í lög

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólfsson
Lagasetning sem tryggir strandveiðikerfið til frambúðar var ein helsta krafa Landssambands smábátaeigenda á aðalfundi þess sem hófst í dag. Framkvæmdastjóri LS segir nýlegar yfirlýsingar frambjóðenda til Alþingis auka bjartsýni.

Strandveiðar hafa smám saman orðið stærri hluti af útgerð smábáta en á sjöunda hundrað bátar voru við strandveiðar í sumar.

Ná ekki 48 dögum þrátt fyrir ákvæði í reglugerð  

Samkvæmt reglugerð má veiða í 12 daga í mánuði frá byrjun maí til ágústloka, samtals 48 daga. Leyfilegur heildarafli strandveiða í ár var 10.000 tonn af þorski auk 1.100 tonna annarra tegunda. Þessi afli veiddist allur áður en tímabilinu lauk, þrátt fyrir að bætt hafi verið við auknum heimildum og veiðar stöðvaðar.

Veiðileyfin gildi til 31. ágúst óháð afla

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir nauðsynlegt að koma í veg fyrir að þetta geti gerst. „Það sem stendur út af og á eftir að samþykkja, þannig að kerfið verði nokkurn veginn fullkomið, er að setja í lög að strandveiðikerfi sé gefið út í 48 daga, jafnskipt á fjóra mánuði.“ Veiðileyfin gildi því til 31. ágúst og ekkert þak verði á hve mikið megi veiða á þessum 48 dögum.

Umræðan í kosningabaráttunni smábátum hagstæð

Miðað við umræðuna í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar er Örn vongóður um að krafa LS nái í gegn. „Þannig að við reiknum nú með að okkur miði áfram á þessu kjörtímabili.  Það var líka þannig umtal og ályktanir hjá öllum stjórnmálaflokkum að það ætti að koma til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Og bara í strandveiðunum þá eru 672 smáfyrirtæki, þannig að við leggjum þetta upp í hendurnar á þeim.“

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda var til umfjöllunar á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.