Valur hafði betur gegn Breiðablik í háspennuleik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valur hafði betur gegn Breiðablik í háspennuleik

13.10.2021 - 22:01
Þrír leikir voru í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Íslandsmeistarar Vals lögðu Breiðablik naumlega 73-70 og eru nú með fullt hús stiga á toppnum eftir fyrstu þrjá leikina.

Valur var búinn að vinna báða sína leiki í deildinni til þessa en Blikar voru án stiga. Valskonur voru átta stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 20-12, en Blikar snéru leiknum sér í vil í 2. leikhlutanum og jöfnuðu metin áður en hálfleiksflautan gall. 33-33 var staðan í hálfleik. Gestirnir úr Kópavoginum fylgdu eftir góðum kafla í upphafi síðari hálfleiks og Blikakonur leiddum með tveimur stigum fyrri lokafjórðunginn. Spennan hélt áfram allt þar til í blálok leiksins þegar Valur sigldi fram úr vann að lokum með þriggja stiga mun, 73-70. Dagbjört Dögg Karlsdóttir var stigahæst hjá Val með 26 stig en Chelsey Shumpert skoraði 20 stig fyrir Blika. Valur er því á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar en Blikar leita enn að sínum fyrsta sigri í deildinni.
 

Njarðvík hafði betur í Suðurnesjaslag og Keflavík lagði Fjölni

Grindavík og Njarðvík mættust svo í Grindavík í Suðurnesjaslag. Líkt og á Hlíðarenda varð leikurinn í Grindavík æsispennandi. Njarðvík var fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta en Grindavík gerði vel í öðrum leikhlutanum og staðan í hálfleik var 34-32, Grindavík í vil. Áfram hélt spennan í síðari hálfleik en Njarðvík skrefi framan af lengst af. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir voru Njarðvíkingar komnir í sex stiga forskot. Gestirnir bættu enn frekar í undir lokin og unnu að lokum með níu stiga mun, 67-58, þriðji sigur Njarðvíkur í röð. Aaliah Collier átti flottan leik fyrir Njarðvík í kvöld og var atkvæðamest með 25 stig, 10 fráköst og sjö stoðsendingar. Í þriðja leik kvöldsins hafði Keflavík betur gegn Fjölni 89-77.