Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Tímabært að ræða næstu afléttingar“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Forsætisráðherra segir tímabært að ræða frekari covid-tilslakanir innanlands. Sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af að inflúensufaraldurinn geti orðið alvarlegur í vetur og það geti reynst heilbrigðiskerfinu erfitt.

Sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra hittust í dag til að ræða stöðu faraldursins hérlendis og næstu skref. Í minnisblaði heilbrigðis- og forsætisráðherra sem var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær segir að drög að minni takmörkunum verði tilbúin fljótlega og að hætta á óviðráðanlegum faraldri hafi minnkað.

Annars staðar á Norðurlöndum eru engar sóttvarnatakmarkanir innanlands. Hér var slakað á í sumar og við fengum það í bakið segir sóttvarnalæknir. „Það hefur ekki gerst það sama á hinum Norðurlöndunum. Við getum spurt af hverju gerist það ekki eins hjá þeim, eins og hjá okkur. Við eigum frekar að horfa á okkar reynslu heldur en endilega að horfa öfundaraugum á það sem aðrir eru að gera en auðvitað höfum við það til hliðsjónar,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

„Þegar við sjáum hvernig þetta hefur gengið undanfarna mánuði síðan við settum þessar takmarkanir þá eigum við að halda okkur við þessa stefnu sem við höfum haft. Sem sagt, stefna að takmarkalausu samfélagi. Það hlýtur að vera markmiðið. Ástæðan fyrir þessu minnisblaði er að við teljum tímabært að ræða næstu afléttingar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Lykillinn að hafa stjórn á landamærunum

Núverandi takmarkanir gilda í viku til viðbótar; til 20. október. Þórólfur segist ekki vera tilbúinn að ræða hvaða aðgerðir hann leggur til næst. Katrín og Þórólfur eru sammála um að tilslakanir innanlands gangi fyrir. „Ég held að það sé lykillinn að því að við náum að aflétta öllu hér og höfum allt frjálst innanlands að við höfum stjórn á landamærunum,“ segir Þórólfur.

„Einnig er það lærdómur sem við drögum af því við afléttum öllu um leið síðast að það sé mikilvægt að gera þetta í skrefum og áföngum,“ segir Katrín.

Sýkingar gætu haft áhrif á heilbrigðiskerfið

Þórólfur segir að sem fyrr ráði geta heilbrigðiskerfisins aðgerðum. Í vetur megi búast við meiri sýkingum en áður; RS-veiru og inflúensu. „Svo eru menn að spá því jafnvel að inflúensan geti orðið alvarlegri í vetur af því hún gekk ekki í fyrra og við þurfum að hafa það í huga þegar við erum að hugsa um að vernda heilbrigðiskerfið.“

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV