Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Stórkostlegt að geta ferðast aftur“

13.10.2021 - 20:03
Mynd: RÚV/Grímur Jón Sigurðsson / RÚV/Grímur Jón Sigurðsson
Friðrik krónprins Danmerkur heimsótti meðal annars Hellisheiðarvirkjun og danskt varðskip á öðrum degi opinberrar heimsóknar sinnar hingað til lands. Krónprinsinn segir Íslendinga og Dani geta lært mikið hvorir af öðrum þegar vistvænar orkulausnir eru annars vegar, þrátt fyrir að löndin státi af ólíkum náttúruauðlindum.

Friðrik krónprins sótti kvöldverðarboð til forsetahjónanna í gærkvöldi ásamt utanríkisráðherrum Íslands og Danmerkur. Þar fór greinilega vel á með fólki, því í morgun þökkuðu allir kærlega fyrir síðast, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Dagurinn hófst í hugmyndahúsi Grósku í Vatnsmýri þar sem horft var bæði til framtíðar en einnig fortíðar. 

„Víkingar fundu upp nýjar aðferðir í siglingum og siglingafræði sem heimurinn hafði aldrei séð og þær fleyttu þeim langt. Þeir þekktu tæpast nútímahugtök eins og sjálfbærni og líffræðilega fjölbreytni en það er magnað að við tengjum enn við þá og getum fengið innblástur frá þessum forfeðrum okkar,“ sagði Friðrik krónprins. 

Næst lá leiðin í Hellisheiðarvirkjun. Markmið heimsóknar krónprinsins, utanríkisráðherrans og viðskiptasendinefndarinnar er að styrkja viðskiptatengsl og samstarf Íslands og Danmerkur á sviði grænna og vistvænna orkulausna. 

„Þessi heimsókn þykir mér mjög spennandi og það er stórkostlegt að geta ferðast aftur og hitt annað fólk augliti til auglitis, tekist í hendur og auðvitað komum við til að læra hvert af öðru,“ segir Friðrik. 

Þetta er fyrsta opinbera heimsókn Friðriks eftir kórónuveirufaraldurinn. Hann segir Íslendinga og Dani geta lært hvorir af öðrum, þó svo að þjóðirnar státi af ólíkum náttúruauðlindum. 

„Við höfum ólíkar gerðir orku, við nýtum vindorku mikið og á Íslandi eru góðar vindaðstæður en hér hafa ekki verið settar upp vindmyllur, en Íslendingar hafa auðvitað jarðvarmaorkuna, og orkunýtingin er til fyrirmyndar einmitt hérna,“ segir krónprinsinn. 

Danska varðskipið HDMS Triton var næsti viðkomustaður gestanna, sem fengu að fræðast um starfsemina um borð í skipinu, en það sinnir eftirliti á Norðurslóðum. 

Aðspurður um hvort hann liti enn bjartari augum til framtíðar eftir daginn svaraði krónprinsinn: 

„Ég er bjartsýnn hvað varðar sniðugar lausnir og þá möguleika sem við reynum alltaf að finna upp, þessar nýju lausnir. Enn er margt sem við eigum eftir að sjá, sem bíður þess að vera uppgötvað af snjöllum Íslendingum og Dönum sem við getum síðan þróað sem lausn fyrir börn okkar og barnabörn.“