Mikill áhugi á íslenskum agúrkum á Norðurlöndum

Gúrka, skorin og heil.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Neytendur á Norðurlöndum eru áfjáðir í íslenskar gúrkur. Framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna segir að meðal annars megi þakka það hreinleika íslenska vatnsins. Hann er mjög þakklátur íslenskum neytendum því án þeirra væri engin íslensk framleiðsla.

„Við erum að keppa við innflutning og ýmsar aðrar matvörur á hverjum einasta degi. Við erum bara svo heppin að íslenskir neytendur eru í liði með okkur og kaupa okkar vöru. Þar með gengur þetta.“

Gunnlaugur Karlsson framkvæmdastjóri Sölufélags garðyrkjumanna segir tilraun hafa verið gerða með útflutning til Grænlands og Færeyja þegar gúrkubændur hugðust auka framleiðslu sína. Nú hefur Danmörk bæst við. 

„Það sem er að gerast í Evrópu er að orkuverð er að rjúka upp úr öllu valdi. Þarna eru menn að hita gróðurhús með einhvers konar jarðefnaeldsneyti eða kaupa sér hitun,“ segir Gunnlaugur. Hér sé hægt að framleiða varnarefnalausa vöru.

„Við höfum náttúrulega heita vatnið hérna. Það er bara kominn áhugi á þessu þannig að staðan er svolítið þannig að ef við eigum einhverjar gúrkur umfram eru Danirnir tilbúnir að kaupa þær.“

Verðið er gott

Gunnlaugur segir að gott verð fáist fyrir gúrkur en þær séu vitaskuld ódýr matvara. Þær íslensku séu seldar tiltölulega háu verði en keppi við gúrkur frá Hollandi og Suður-Evrópu. 

„Neytendur, þar líkt og hér kunna gott að meta og eru að kaupa þessar gúrkur á grundvelli gæða.“ Ræktunarskilyrði segir Gunnlaugur að vera mjög góð hér og því fáist góðar afurðir. 

Þær íslensku séu því fyrst og fremst keyptar vegna gæða. Salan til Grænlands hófst fyrir þremur til fjórum árum, vandinn hafi verið ónóg framleiðsla þar til í fyrra og nú sé mikill áhugi á að auka útflutning. 

„Síðan þá höfum við verið að senda gúrkur reglulega á erlenda markaði. Núna er áhugi á því jafnvel að stórauka útflutning. Það er kominn ákveðinn möguleiki á því að fara að byggja sérstaklega fyrir þennan útflutning mögulega.“

Nokkrir framleiðendur hér á Íslandi eru að sögn Gunnlaugs langstærstir. Hann segir bændur geta breytt ræktun eftir árstíð, framleitt gúrkur hluta úr árinu og meira af tómötum. Ræktunin hafi verið stýrt eftir þörfum markaðarins. 

„Við sáum mikla aukningu í tómatarækt á Friðheimum í fyrra, þeir stækkuðu húsið verulega og sinntu markaðinum hérna heima miklu betur. Það er líka ákveðinn áhugi ytra á tómötum en það er ekki nógu mikið framleitt.“

Fulltrúar erlendra kaupenda eru á leið til landsins að ræða enn frekari framleiðslu og hvort auka eigi ræktunina. Grænlendingar eru áfjáðir í íslenskar kryddjurtir, jarðarber, salat og aðrar afurðir. 

Gunnlaugur segir að þekkingin sé til staðar, mikilvægt sé að velja rétt afbrigði, nota ræktunarskilyrðin og stýra framleiðslunni rétt. Þá sé enginn hætta á að framleiðsluaukning verði á kostnað gæða. 

Þriðjungur hverrar gúrku til RARIK

„Ef hagrænar forsendur eru fyrir hendi, að þetta séu viðskipti sem borga sig þá fara menn bara í það. Þá koma til álita þættir eins og hvað verður um rafmagnsverð, flutningskostnað á rafmagni sem er stærsti liðurinn í þessu.“

Gunnlaugur segir langt frá að bændur séu sáttir við rafmagnsverð. „Það er kerfisvilla í þessu, gjaldskráin er ekki fyrir hendi. Það er engin gjaldskrá fyrir garðyrkjuna, það var farið þá leið að rukka fullt verð fyrir flutninginn og niðurgreiða hann svo upp að vissu marki.“

Þegar sá pottur framleiði bændur afurðir sínar á fullu verði. „Eins og ég hef margbent á fer einn þriðji af gúrkunni til RARIK. Þrátt fyrir mótmæli á þeim bæ er það samt sem áður staðreynd. Þetta þarf bara að laga.“