Kærleikur var eitthvað sem mig langaði til að boða

Mynd: Forlagið / Forlagið

Kærleikur var eitthvað sem mig langaði til að boða

13.10.2021 - 23:11

Höfundar

Haukur Ingvarsson hefur sent frá sér nýja ljóðabók, titill bókarinnar Menn sem elska menn ber viðfangsefni bókarinnar, sem meðal annars er elskan, glöggt vitni. Haukur kafar hér í djúp bókmenntasögunnar, nýrri en ekki síður gamallar, staldrar í heilum bálki við Fjölnismenn, sem sannarlega voru menn sem elskuðu menn eða einfaldlega elskuðu því það er kærleikurinn sem sem öllu skiptir eins Svava Jakobsdóttir orðaði svo vel: „Fegurðin er allstaðar og fegurðin ber vitni um kærleika Guðs.“ .

Þessi setning Svövu Jakobsdóttur í útvarpsþætti fyrir margt löngu er ein af fjölmörgum uppsprettum ljóðabókarinnar Menn sem elska menn. Hún fékk reyndar ekki að fylgja með í bókinni því hún var of trúarleg, að sögn skáldsins. „Ég er oft að berjast við trúna og án þess að vera beinlínis trúaður,“ segir Haukur, „en svona trúarstef koma oft upp í því sem ég er að reyna að skrifa.“ Haukur segir þessar hugleiðingar líklega fyrirferðarmestar í lokabálki bókarinnar en við skrif hans hefði spurningin um kærleika Guðs sem fórnaði syni sínum hefðu sótt mjög á hann. „Mér fannst það svo grimmt,“ segir Haukur, „og mér fannst svo mikilvægt, ekki síst á þeim tímum sem við lifum, að feður játuðu ást sína á börnunum sínum, sama hvernig þau eru. Þannig séð var kærleikurinn eitthvað sem ég vildi boða með þessari bók, kærleikur og fegurð (...) þessi karlmennskahugmynd sem er verið að afneita núna og deila á, hún er ekki endilega fasti. Við getum breytt henni.“     

Haukur Ingvarsson hefur sveimað um á sporbaugum íslensks bókmenntalífs í næfellt tuttugu ár. Hann var í hópi þeirra ungskálda, sem í kringum síðustu aldamót hvert með sínum hætti, tóku að dansa fram með ljóð sín undir nafni ljóðafélagsins Nýhil  Árið 2005 kom fyrsta ljóðbók Hauks út, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga og 2011 sendi hann frá sér skáldsöguna Nóvember 1976. Báðar þessa bækur vöktu athygli og þóttu lofa góðu. Það var þó líklega ekki fyrr en með ljóðabókinni Vistarverur árið 2018 - fyrir handrit hennar fékk Haukur Verðlaun Tómasar Guðmundssonar - að ljóst var að hér var komið djúpt og íhugult ljóðskáld sem hefur lag á að gefa þyngslunum vængi með kerksni og sprelli. 

Ljóðabókin Menn sem elska menn skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum,  „Laumufarþegar“ birtast myndir af hversdagslíf fræðimannsins sem jafnframt er skáld en bæði fræðimenn og skáld eru gjarnan í slagtogi við fjölda fólks, lífs og liðið, alls kyns laumufarþega, í hugsunum sínum og eiga samtal við það í verkum sínum. Annar kaflinn er bálkur með nafni bókarinnar, „Menn sem elska menn“. Þar skyggnist ljóðmælandi um í umhverfi Fjölnismanna, Jónasar, Tómasar og Konráðs, bæði í Reykjavík og Kaupmannahöfn en líka í Fljótshlíðini þar sem Tómas fársjúkur má grafa konu sína og börn. Ljóðmælanda verður svo líka hugsað til hárkarlanna, þessara miklu skepna sem ná svo háum aldri að hákarl sem svamlar í sjónum núna hefði jafnvel getað verið samtíða þeim Fjölnismönnum á sínum tíma. Sumir hákarlar urðu þó ekki svo aldnir að árum heldur voru drepnir ekki síst vegna lýsisins, ljósmetisins sem lýsti götur bæja og borga Evrópu fyrr á öldum. 

Haukur kynnti sér vel bréfaskipti Fjölnismanna og byggir bálkinn m.a. á þeim enda bréfaformið víðtækt og margrætt form: „Bréfaformið gefur manni einhvers konar alibí, það opnar, leyfir manni að ávarpa lesandann. Bréfaformið er lausbeislað form þar sem frásögn og líka mjög innilegar tilfinningar blandast saman, hugleiðingar líka, hvað sem er," segir Haukur og heldur áfram: „En fyrst og fremst er bréfaformið kannski einhvers konar blekking gagnvart lesandanum sem vegna þessa forms veitir mér sem höfundi meira frelsi til að fara út um víðan völl.“

Haukur undirstrikar líka að ljóðabálkar bókarinnar, Menn sem elska menn, einkum fyrstu tveir bálkarnir séu frásagnarkvæði, „sem sagt ljóðabálkar sem skiptast í marga hluta og mér er í mun að skapa einhverja svona stemningu. Margt í þessum bálkum hefði mátt skrifa þannig að úr yrði skáldsaga eða smásaga en ég kaus að vinna inn í þetta knappa form ljóðsins.“

Síðasti kafli bókarinnar heitir „Úr höfði himinn“, þar virðist höfundur leitast  við að tengja, setja hluti í samhengi, upphafið, forfeður og mæður. Hér eru minningar, játningar líka ástarjátningar, einkanlegar og almennar, í hinu smæsta og hinu stærsta samhengi, frá goðfræðilegu upphafi heimsins allt til upphafsins hér og nú.

horfum út í geiminn
og leitum

yndis
fróðleiks
huggunar

leiðum saman huga
eins og þú
leiddir
huga
minn

í
þínu
höfði

undir
þínum
himni

heiðar stjörnur
og spor okkar

skerðu fjöturinn
slepptu honum
lausum 

Ljóðskáldið Haukur Ingvarsson er svo líka alvarlegur bókenntafræðingur og vöktu bæði meistararitgerð hans um síðustu skáldsögur Halldórs Laxness sem kom út á bók árið 2009 og doktorsritgerðin sem hann varði í fyrra og fjallaði um áhrif bandaríska sagnaskáldsins Williams Faulkners á íslenskum bómenntavettvangi um miðja síðustu öld verðskuldaða athygli.   

Mynd: Jórunn / Jórunn
Haukur Ingvarsson les úr bók sinni Menn sem elska menn