Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hreinsun á Hofsósi gæti tekið um 2 ár

13.10.2021 - 13:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Verkís hefur skilað inn úrbótaáætlun vegna olíumengunar frá bensínstöð N1 á Hofsósi. Þar eru lagðar til umtalsverðar aðgerðir og er gert ráð fyrir að hreinsunarstarf taki allt að tvö ár.

Frekari aðgerða þörf

Í desember 2019 var staðfestur olíuleki frá bensíngeymi N1 á Hofsósi, sem var síðar grafinn upp og fjarlægður. Í ljós kom olíumengun í jarðvegi. Tvö hús voru rýmd vegna mengunar, en reynt var að lofta um jarðveginn með þar til gerðum búnaði. N1 fékk Verkís til að vinna úrbótaáætlun og fóru mælingar fram á svæðinu í sumar. Að mati sérfræðinga Verkís þarf að grípa til frekar aðgerða á svæðinu.

Erla Guðrún Hafsteinsdóttir, umhverfis- og jarðefnafræðingur hjá Verkís, segir að lítil mengun hafi greinst í jarðveginum sjálfum en hún sé meiri í jarðvegsloftinu sem stígur upp. „Okkar tillaga byggir á því að lofta um jarðveginn og þar með mun styrkur mengunarefna minnka. Við ætlum að grafa skurði þarna og leggja rör sem munu lofta um jarðveginn.“
 

Hreinsun mun taka talsverðan tíma

Einnig er fyrirhugað að fjarlægja þann jarðveg sem greinist mengaður og sömuleiðis verður farið í mótvægisaðgerðir á húsunum sjálfum.

„Það er líka lagt til að farið verði í mótvægisaðgerðir á húsunum sjálfum. Við lögðum til að botnplatan yrði þétt. Og það yrði loftun undan með svona loftunarrörum og loftið sogað undan húsunum. Það á að draga úr lykt á svæðinu sem hefur verið það sem fólk kvartar mest undan,“ segir Erla Guðrún.

Þegar öllum búnaði hefur verið komið upp verður eftirlit með hreinsunarferlinu. Gert er ráð fyrir að hreinsun geti tekið allt að tvö ár en stefnt er á að vakta svæðið í 12 mánuði eftir að hreinsun telst lokið.

Umhverfisstofnun hefur lagt fram tillögur að fyrirmælum um úrbætur sem byggja á úrbótaáætlun Verkís. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 20.október.