Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fréttir: Undirbúa afléttingu sóttvarnaaðgerða

13.10.2021 - 12:10
Yfirvöld hafa beðið forstöðumenn hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu um að fjölga tvíbýlum til þess að létta álagi af Landspítala. Aðgerðin er liður í undirbúningi afléttingu sóttvarnaaðgerða.

Öryrkjabandalag Íslands segir þak á greiðsluþátttöku sjúklinga hriplekt. Í nýrri skýrslu þess kemur fram að sjúklingar greiði á annan milljarð í komugjöld til sérfræðilækna og sjúkraþjálfara framhjá greiðsluþakinu.

Fimmtíu kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, rétt tæpur helmingur eða tuttugu og fjórir voru utan sóttkvíar við greiningu.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfur fjögurra yfir- og aðstoðarlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra um að embættinu beri að standa við það launasamkomulag sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við þá í ágúst fyrir tveimur árum. 

Hópur vísindamanna á Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands telur nauðsynlegt að gera svipað átak vegna aukinnar hættu á skriðuföllum og gert var vegna snjóflóðahættu á tíunda áratugnum.

Gert er ráð fyrir að hreinsunarstarf vegna olíumengunar frá bensínstöð N1 á Hofsósi, sem kom upp fyrir tæpum tveimur árum, taki allt að því tvö ár í viðbót.

Starfsfólk bandaríska sendiráðsins í Kólumbíu kvartar yfir svipaðri vanlíðan og vart hefur orðið á Kúbu og víðar. Málið hefur verið rannsakað árum saman, án árangurs.

Friðrik krónprins af Danmörku er í opiberri heimsókn hér á landi.  Þetta er fyrsta opinbera heimsókn erlends tignarmanns síðan kóvid-faraldurinn brast á. 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV