Fimm látin eftir árás bogamanns í Kongsberg í Noregi

13.10.2021 - 19:10
Mynd: NRK / NRK
Fimm liggja í valnum og tvö eru særð eftir árás bogamanns í norsku bænum Kongsberg nú síðdegis. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka en mikill viðbúnaður er um allan Noreg vegna málsins.

Í frétt norska ríkisútvarpsins af málinu er haft eftir Øyvind Aas, lögreglustjóra í bænum að viðamikil rannsókn standi nú yfir. Ódæðismaðurinn er í haldi lögreglu og þau særðu voru flutt á sjúkrahús. Neyðarhjálparstöð hefur verið sett upp í borginni en fólk hefur verið beðið um að halda sig heima við.

Norska öryggislögreglan PST er á vettvangi. Aas segir mikinn fjölda lögreglumanna og hermanna á svæðinu en maðurinn fór víða um í miðborg Kongsberg. Lögregla lokaði af og stendur vörð um alla þá staði þar sem maðurinn lét skríða til skara.

Fyrstu fréttir af atburðunum bárust klukkan 18:13 að norskum tíma og árásarmaðurinn náðist rúmum hálftíma síðar. Lögregla verst enn allra frétta af því hver hann er en gengið er út frá því að hann hafi verið einn að verki, einskis annars er leitað að sögn Aas. 

Árásarmaðurinn er nú í haldi lögreglu í Drammen en ekki liggur fyrir hvenær yfirheyrslur hefjast yfir honum. Ekki er enn vitað hvað honum gekk til með árásunum. 

Utanríkisráðuneytið hvetur Íslendinga í bænum að láta aðstandendur vita af sér og til að hafa samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu, 354 545-0112 þarfnist þeir aðstoðar.

Sendiráð Íslands í Noregi fylgist vel með framvindu mála í Kongsberg. Fólk er hvatt til að virða lokanir og tilmæli yfirvalda og fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum. Mikið álag er á símkerfi bæjarins þessa stundina og því best að nota samfélagsmiðla til að láta vita af sér.

Sveinn H. Guðmarsson fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins segir í samtali við fréttastofu að enginn Íslendingur hafa haft samband við borgaraþjónustuna en samkvæmt upplýsingum norsku Hagstofunnar eru 69 með íslenskan ríkisborgararétt skráð til heimilis í bænum.

Kongsberg er um 67 kílómetra frá Ósló, í Viken-fylki sem varð til eftir sameiningu fylkjanna Akershus, Buskerud og Austfold árið 2020. Þar eru höfuðstöðvar hergagnaframleiðandans Kongsberg sem veitir um 11 þúsund manns atvinnu. Íbúar bæjarins eru um 28 þúsund talsins. 

Fréttin var uppfærð klukkan 22:50.

Kort af miðborg Kongsberg í Noregi þar sem bogamaður skaut fjölda fólks 13. október 2021.
 Mynd: VG/Yasmin Sfrintzeris
markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV