Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Breiðablik tapaði stórt fyrir Real Madrid ytra

Mynd með færslu
 Mynd: Champions League - RÚV

Breiðablik tapaði stórt fyrir Real Madrid ytra

13.10.2021 - 21:24
Breiðablik tapaði 5-0 fyrir stórliði Real Madrid í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í fótbolta í kvöld. Spilað var á Alfredo Di Stefano vellinum í Madríd.

Blikar spiluðu vel gegn Frakklandsmeisturum PSG í fyrstu umferðinni í síðustu viku en máttu sætta sig við 2-0 tap. En leikurinn í kvöld byrjaði ekki vel hjá þeim grænklæddu og á 5. mínútu fékk danska landsliðskonan Caroline Möller frábæra sendingu inn fyrir vörn Blika og Möller kláraði færið af miklu öryggi. Fimmtán mínútum síðar komst Madrídarliðið tveimur mörkum yfir. Lorena Navarro reyndi þá skot sem fór af Kristínu Dís Árnadóttir og þaðan til Caroline Möller sem skoraði aftur. Sú danska hélt áfram að leika Blika grátt og á 43. mínútu innsiglaði hún þrennuna eftir flottan undirbúning.

Blikar voru því þremur mörkum undir í hálfleik. Strax í upphafi síðari hálfleiks kom fjórða markið, það skoraði Olga Carmona sem hafði komið inn af varamannabekknum í hálfleik. Madrídingar voru ógnarsterkir og áttu alls 18 tilraunir á markið gegn tveimur tilraunum Blika. Lorena Navarro innsiglaði svo öruggan sigur Madrídinga á 88. mínútu og 5-0 reyndust loktaölur í erfiðum leik í Madríd. Breiðablik er án stiga eftir fyrstu tvo leikina eins og Kharkiv frá Úkraínu sem tapaði sömuleiðis 5-0 fyrir PSG í kvöld. Parísarliðið og Real Madrid eru með 6 stig í riðlinum.