Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tæplega 100 manns sem eiga ekki að vera á Landspítala

12.10.2021 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Áskorun sem ekki verður vikist undan og ástand sem jaðrar við sturlun eru orð sem yfirlæknir á bráðamóttöku og framkvæmdastjóri meðferðarsviðs LSH nota um stöðuna á Landspítalanum. Tæplega hundrað manns eru á sjúkrahúsinu sem ættu að hafa annan dvalarstað.

Tæplega þriðjungur af hundrað mann hópi  á Landspítala sem ætti að hafa annan dvalarstað að sögn Runólfs Pálssonar framkvæmdastjóra meðferðarsviðs liggur á bráðalegudeildum. Bregðast þurfi við þegar í stað.

Runólfur segir að lengi hafi verið reynt  að leita leiða til að leysa vandann en án árangurs. Ástandið hafi einungis batnað tímabundið þegar ný hjúkrunarheimili hafi verið tekin í notkun. 

„Svo fer alltaf í sama farið. Það er búið að vinna mikla vinnu innan spítalans í að efla verkferla til að miða að betri nýtingu legurýma. En eftir stendur alltaf sami vandinn að miðað við þær aðstæður sem eru hverju sinni þá skortir fjölmörg legurými á spítalanum og það er ekki hægt að una við þetta lengur. Það verður að finna einhverjar leiðir til að losa um þetta ástand því að það er hvorki boðlegt fyrir sjúklinga né starfsfólk."

Hjalti Már Björnsson yfirlæknir á bráðamóttöku líkir ástandinu  við sturlun.

„Ástandið í heilbrigðiskerfinu er farið að jaðra við hreina sturlun. Starfsfólk Landspítalans er orðið dauðþreytt á því að geta ekki veitt skjólstæðingum sínum ásættanlega þjónustu."

Runólfur Pálsson segir ekki unnt að bíða með aðgerðir.
„Þetta er gríðarleg áskorun sem verður ekki vikist undan . Það er enginn tími til stefnu því ástandið hefur verið þannig síðustu daga  að það er ekki  hægt að una við þetta." 

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir