Söngvarar þurfa blöndu af viðkvæmni og sjálfsöryggi

Mynd: Harpa / Harpa

Söngvarar þurfa blöndu af viðkvæmni og sjálfsöryggi

12.10.2021 - 12:04

Höfundar

Það er alltaf hægt að bæta sig í hverju sem er, segir Andri Björn Róbertsson söngvari. Hann hefur náð langt í tónlistinni á skömmum tíma en játar að vera í eðli sínu hlédrægur.

Andri Björn Róbertsson, einn af fremstu söngvurum Íslendinga, kemur fram á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu í kvöld. Tónleikarnir eru sendir út í mynd í beinu streymi sem hægt verður að njóta á RÚV.is klukkan 19:30 í kvöld. Tónleikarnir eru hluti af tónlistarröðinni Heimssvið, þar sem ungir evrópskir tónlistarmenn koma fram.

Andri Björn er bass-barítón og var valinn bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaunum 2013. „Það er alltaf hægt að bæta sig í hverju sem er og halda áfram, bæta og breyta,“ segir hann í samtali við Sigurlaugu M. Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. „Á þeim tíma var þetta mjög ánægjulegt. Ég var úti þá og í öðrum verkefnum og með mín eigin markmið, þannig að þetta var góð hvatning.“

Hann byrjaði snemma að syngja í kór og byrjaði í söngtímum þegar hann var 9 ára. Fram á táningsár stefndi hann þó í allt aðra átt en að starfsframa í söng. „Mig langaði mest að verða fótboltamaður en þegar ég var 16 eða 17 áttaði ég mig á því að ég var ágætur í söngnum og þá jókst áhuginn. Þá ósjálfrátt fór ég að setja mér markmið.“

Í október kemur út fyrsta hljómplata Andra Björns, þar sem hann flytur ásamt Ástríði Öldu Sigurðardóttur píanóleikara lög og tónverk eftir Robert Schumann og Árna Thorsteinsson. Á tónleikunum í kvöld flytja þau tónlist af plötunni.

Stórt belgískt útgáfufyrirtæki, sem nefnist Outhere Music gefur út plötuna. „Það er mikil viðurkenning að fá svona gott fyrirtæki til að gefa þetta út og þau tóku það að sér áður en ég var búinn að taka upp diskinn. Þannig að þau vissu ekkert hvernig þetta kæmi út, sem er mikil viðurkenning fyrir mig.“

Andri hefur náð langt í tónlistinni. Hann hefur tekið þátt í fjölda óperuuppfærslna í óperuhúsum Evrópu, þar á meðal í Covent Garden, í Óperunni í Lyon og Óperunni í Zürich. Auk þess hefur hann sungið fjölda hlutverka í óperuuppfærslum á Englandi og Wales. Þó viðurkennir hann að eiga stundum bágt með að koma sér á framfæri. „Mér finnst það mjög óþægilegt. Ég er frekar hlédrægur að eðlisfari og ekkert mikið að hafa mig frammi svona.“

En er það ekki óheppilegt fyrir söngvara?

„Ég veit það nú ekki. Söngvarar þurfa að vera blanda af viðkvæmni og sjálfsöryggi. Ég hef lært að kveikja á sjálfsörygginu þegar þarf. Ég hef þau áhrif á fólk stundum, af því að segi ekki mikið stundum, að ég sé feiminn. En ég er ekkert feiminn. Þegar ég hef eitthvað að segja þá læt ég gamminn geisa.“