Seyðfirðingar mega snúa heim og hættustigi aflýst

12.10.2021 - 16:54
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur ákveðið að aflétta öllum rýmingum í húsum á Seyðisfirði og hættustig almannavarna hefur verið fært niður á óvissustig.

Lögreglan á Austurlandi tilkynnti þetta seinni partinn í dag. Í gær var rýmingum aflétt að hluta en ekki í fimm húsum. Þeim hefur nú verið aflétt einnig. 

„Hægt hefur á hreyfingu sem mælist á hryggnum milli skriðusársins frá desember 2020 og Búðarár. Mælingar og athuganir á vettvangi sýna að sprungur hafa opnast undanfarna daga og hryggurinn gliðnað. Þannig hafa líkur aukist á að hann brotni upp. Falli hann fram mun hann að líkindum fara í nokkrum stykkjum. Við því mætti búast í rigningartíð einhvern tíma á næstunni.“ segir í tilkynningu almannavarna.

Allar líkur eru taldar á því að varnargarðar og safnþró leiði skriðuna til sjávar án þess að valda tjóni á mannvirkjum ef til þess kemur. Fólk er áfram beðið um að sýna aðgæsla vegna umferðar á göngustígum meðfram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum.