Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir efni tölvupósts ekki hafa beinst gegn Birgi

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Stjórnarmaður í kjördæmafélagi Miðflokksins í Suðurkjördæmi segist ekki hafa orðið vör við að unnið hafi verið gegn Birgi Þórarinssyni. Birgir sjálfur segir að unnið hafi verið gegn sér allt frá áramótum. Það hafi meðal annars komið fram í tölvupósti fimm dögum fyrir kosningar. 

Hallfríður Hólmgrímsdóttir bæjarfulltrúi í Grindavík, stjórnarmaður kjördæmafélagsins í Suðurkjördæmi og formaður innra starfs Miðflokksins segir af og frá að athugasemdir í póstinum hafi beinst gegn Birgi eða öðrum á framboðslistanum.

Birgir gerði tölvupóstinn að umtalsefni í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun. Hann segist hafa verið sár og svekktur yfir innihaldi hans. 

„Það kemur síðan tölvupóstur, bara fimm dögum fyrir kjördag, frá yfirstjórn flokksins sem segir að það sé hæpið að þessi framboðslisti standist lög flokksins. Þetta eru náttúrulega ótrúlegar kveðjur frá yfirstjórn flokksins rétt fyrir kjördag“ 

„Formaður nefndarinnar var gerður ótrúverðugur og fólk varð fyrir aðkasti þegar búið var að velja mig á lista,“ sagði Birgir. 

Snerist ekki um fólkið á listanum

Hallfríður segir að erindi hafi borist stjórn sem framsendi það laganefnd sem fjallaði efnislega um það. Nefndin sendi frá sér ályktun þess efnis að ekki hafi verið rétt staðið að málum við uppstillingu í kjördæminu.  

Athugasemdir í tölvupóstinum hafi snúist um tæknileg atriði við framkvæmd uppstillingar. „Ég skil ekki af hverju Birgir Þórarinsson hefur þennan tölvupóst undir höndum,“ segir Hallfríður.

„Það var einn aðili sem samþykkti listana en benti þó á þennan úrskurð laganefndarinnar, en velti því fyrir sér hvort að framkvæmdin við uppstillinguna hafi verið í lagi.“ 

Þar sé verið að vísa í að alls ekki sé verið að tala um fyrsta sæti listans. Hallfríður segist ekki hafa heimild til að greina frá nákvæmlega um hvað málið snerist.

„Honum var stillt upp í fyrsta sæti og það var enginn að kasta rýrð á það. Hann sat eftir sem áður í fyrsta sæti og ályktun laganefndar snerist aldrei um það.“

Hallfríður segir jafnframt að Birgi hafi verið fullkunnugt um það. 

Erna verður ekki varaþingmaður Sjálfstæðisflokks

Erna Bjarnadóttir greindi frá því í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hún hyggist ekki fylgja Birgi og verða varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu.

Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi bauð þau bæði velkomin til starfa þegar á sunnudaginn en nú er ljóst að Erna verður ekki varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Það merkir að þurfi Birgir að taka sér frí frá þingstörfum fjölgar í þingliði Miðflokksins úr tveimur í þrjá. Nú telur þingflokkur Miðflokksins tvo, formanninn Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, oddvita Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkur er nú með sautján þingmenn eftir vistaskipti Birgis.

Fréttastofa hefur reynt í þrjá daga að ná tali af Ernu Bjarnadóttur. Skömmu fyrir klukkan tvö í dag tilkynnti hún að hún veiti ekki önnur viðtöl að sinni. 

Fréttin var uppfærð klukkan 13:53.