Nýkjörnir þingmenn settust á skólabekk Alþingis

12.10.2021 - 21:35
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Nýir þingmenn eftir alþingiskosningarnar eru alls 25 og þeir settust á skólabekk í dag. Þeir hlakka flestir mikið til að taka til starfa á löggjafarsamkomunni og setja baráttumál sín á dagskrá.

Hefð er fyrir því að nýkjörnir alþingismenn eru kallaðir á kynningarfund um þingstörfin fljótlega eftir kosningar, nokkurs konar busadag á Alþingi. Nýir þingmenn eru 25 en þeir voru 12 í síðstu kosningum og á meðal þeirra sem taka sæti núna eru jöfnunarþingmenn eftir aðra talningu í Norðvesturkjördæmi. 

„Markmiðið er að bjóða nýjum þingmönnum upp á fræðslu og upplýsingar um hvaðeina, til dæmis þingstörfin, hvað fer fram í þingsal, nefndastörfin, siðareglur, hagsmunaskráningu, þá þjónustu sem er boðið upp á hérna vegna þess að þetta er stór og mikil stofnun.“ segir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis.

Strax í morgun streymdu nýir þingmenn í þinghúsið reiðubúnir að takast á við nýjar áskoranir á nýjum vinnustað, þar sem í raun gilda allt önnur lögmál en á almennum vinnumarkaði. Guðrún Hafsteinsdóttir kom í þinghúsið í fyrsta skipti fyrir nokkrum dögum. 

„Ég hef aldrei unnið annars staðar en í mínu fjölskyldufyrirtæki austur í Hveragerði þannig að ég er að skipta um vinnu og þetta verða spennandi dagar.“ segir Guðrún, nýr þingmaður Sjálfstæðisflokks.

„Mér líst bara mjög vel á þetta, rosalega góð orka í herberginu. Það er líka gaman að sjá hvað það eru margir nýir þingmenn, kannski aðeins minni pressa á okkur sem ný erum að upplifa að við erum nánast til helminga á við þá sem eldri eru en bara mikil þekking sem er að koma inn á þing þannig að ég er bara mjög spennt fyrir þessu.“ segir Kristrún Frostadóttir, nýr þingmaður Samfylkingar.

Ertu búin að ákveða hverju þú ætlar að byrja á?

„Ég brenn mikið fyrir heilbrigðismál og orkumál og ætli áherslurnar liggi ekki þar alla vega til að byrja með.“ segir Ingibjörg Ólöf Isaksen, nýr þingmaður Framsóknarflokks.

Heldur þú að þetta verði átakaþing?

„Ég myndi nú ekkert telja það neitt sérstaklega. Ég held að, alla vega geng ég í anda friðsemdar til þings og vona að það verði svona frekar.“ segir Jakob Frímann Magnússon, nýr þingmaður Flokks fólksins.

Formenn stjórnarflokkanna halda sem fyrr spilunum þétt að sér í viðræðum um stjórnarmyndun og sitja aðeins þrjú við það borð. Þau segja þó að viðræðum miði áfram. Afar sennilegt er að þau myndi ekki nýja ríkisstjórn fyrir en niðurstaða liggur fyrir í talningarmáli Norðvesturkjördæmis. Þingsetning verður þannig að öllum líkindum ekki fyrr en í nóvember og því hafa nýir þingmenn góðan tíma til undirbúnings.