Heilsubót úr innyflum

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Heilsubót úr innyflum

12.10.2021 - 14:50

Höfundar

Í matarsmiðju BioPol á Skagaströnd standa þrjár konur og saga niður frosna kindalifur. Þetta er hráefni sem er kannski ekki aðlaðandi þegar þarna er komið sögu en þetta á eftir að enda sem fæðubótarefni af fínara tagi.

Þarna er sprotafyrirtækið Pure Natura að störfum.

„Við erum búin að vera, síðan 2015, að vinna ýmiss konar innmat úr sauðfé. Við erum með lambalifur, lambahjörtu, lambanýru, hóstakirtla, bris og svo erum við með lambaeistu," segir Hildur Þóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Pure Natura.

„Okkar afurðir eru fæðubótarefni eða fæðuunnin vítamín í töfluformi. Hráefnið er innmatur og jurtir, allt íslenskt en framleiðslan fer að hluta til fram í Bretlandi. Við þurfum að senda hráefnið þangað í frostþurrkun þar sem það er ekki aðstaða til þess hér á landi, ekki enn. Vonandi stendur það til bóta en frostþurrkunarklefi sem myndi nýtast okkur og mörgum öðrum framleiðendum kostar um 200 milljónir. Þær á ég ekki til, eins og er, en hver veit?" segir Hildur