Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

320 þúsund manns að gosstöðvunum

Mynd: Björg Guðlaugsdóttir / RÚV
Um 320 þúsund manns hafa nú gengið að gosstöðvunum á Reykjanesskaga frá því að teljarar voru settir upp við gönguleiðir skömmu eftir að gos hófst 19. mars. Heimamenn settu sig þá strax í stellingar.

Á allt öðrum stað nú

Þuríði Aradóttur forstöðukona  Markaðsskrifstofu Reykjaness var í viðtali í Speglinum á fjórða degi í gosi og lýsti sinni sýn á hvernig bregðast skyldi við væntanlegum áhuga Íslendinga og erlendra ferðamanna á gosinu.  Nú eru tæpir sjö mánuðir frá því gosið hófst. 

Þuríður segir  að gosið hafi haft þau áhrif að Suðurnesjamenn séu nú á allt öðrum stað en fyrir gos þegar kemur að markaðssetningu Reykjanesskagans. Í stað þess að áður fór öll orka í að vekja athygli á að Reykjanesskagi væri til,  þá færi vinnan núna í það að leiðbeina ferðafólki hvað hægt sé að að gera meira á svæðinu en að skoða eldstöðvarnar.

Mest mætt á landeigendum 

Þegar gosið hófst var komið á fót starfshópi á vegum atvinnumála- ráðuneytisins þar sem í áttu sæti fulltrúar heimamanna í sveitarstjórnum, landeigenda fyrirtækja, Umhverfisstofnunar, almannavarna og fleiri til þess að koma með tillögur um hvernig bregðast ætti við.  „Það hefur gengið ótrúlega vel að ná þessum hópi saman og skilgreina verkefnið og koma því í framkvæmd" segir Þuríður. "Mest hefur mætt á landeigendum að þróa þennan áningarstað, sem er orðinn einn vinsælasti ferðamannastaður landsins" segir Þuríður Aradóttir forstöðukona Markaðsskrifstofu Reykjaness. 

Heyra má viðtalið við Þuríði í spilaranum hér að ofan. 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV