Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

11 hafa kært kosningarnar til Alþingis

Mynd: Guðmundur Bergkvist / Skjáskot
Þó að kæra Karls Gauta Hjaltasonar vegna meðferðar kjörgagna í Norðvesturkjördæmi myndi leiða til sakfellingar hefði það ekki sjálfkrafa áhrif á niðurstöður kosninganna. Þetta segir lektor í stjórnskipunarrétti. Kæran er nú á borði ákærusviðs lögreglu. Ellefu kærur hafa borist Alþingi vegna kosninganna.

Karl Gauti var oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi og hlaut jöfnunarþingsæti eftir að upprunalegar lokatölur úr Norðvesturkjördæmi voru kynntar. Eftir endurtalningu misstu allir jöfnunarþingmenn sæti sín til flokksfélaga sinna og Karl Gauti kærði endurtalninguna á grundvelli kosningalaga og þingskaparlaga.

Þá vísar hann til ákvæða í kosningalögum um að kjörgögn skuli vera innsigluð, að kjörstjórn megi ekki yfirgefa kjörstað og að gerðabók yfirkjörstjórnar hafi ekki verið rétt undirituð. Lögregla hefur lokið rannsókn málsins og er það nú til meðferðar hjá ákærusviði embættisins. Lögreglustjórinn á Vesturlandi vildi ekki veita fréttastofu frekari upplýsingar þar sem um væri að ræða sakamál sem væri til meðferðar.

„Málið fer í farveg hefðbundins sakamáls og ef svo ber undir fer málið fyrir dóm og einhver verður dæmdur til refsingar,“ segir Kári Hólmar Ragnarsson lektor í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands.

Auk þessa hafði Alþingi í dag borist ellefu kærur vegna Norðvesturkjördæmis. Þær eru frá frambjóðanda Pírata í kjördæminu, þeim fimm þingmönnum sem misstu jöfnunarþingsæti sín við endurtalningu og fimm almennum borgurum. 

Kári segir að þó svo færi að kæran leiddi til refsiábyrgðar þyrfti það ekki að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna.

„Það er hægt að dæma einhvern til refsingar en kosningarnar gætu staðið þrátt fyrir það. Þessir tveir hlutir geta gerst á sama tíma og það er þá spurning hvort einhverjar af þeim rannsóknaraðgerðum sem framkvæmdar hafa verið af lögreglu muni skila sér þannig að við fáum eitthvað nýtt ljós á málið sem er til meðferðar hjá Alþingi,“ segir Kári.