Vinur með viðskiptavit forðaði lögunum frá skúffunni

Mynd: Lilja Jón / Lilja Jóns

Vinur með viðskiptavit forðaði lögunum frá skúffunni

11.10.2021 - 11:45

Höfundar

Bony Man er söngvari og lagahöfundur sem gaf út sína fyrstu plötu á dögunum. Tónlistin hefði líklega safnað ryki í skúffu ef ekki hefði verið fyrir áeggjan vinar sem bauðst til að borga fyrir gerð plötunnar.

Undanfarið hefur lag Bony Man, sem heitir Better off, fengið nokkra spilun í útvarpi. Lagið er af plötunni Cinnamon Fields sem kom út í september. Maðurinn á bakvið nafnið er Guðlaugur Jón Árnason. Hann starfar sem framhaldsskólakennari en hafði samið tónlist í hjáverkum, án þess þó að ætla sér að gefa nokkuð út.

„Þetta byrjaði allt þannig að ég og félagi minn voru saman að músísera. Hann er mikill viðskiptajöfur í dag og allt sem hann snertir breytist í gull,“ segir hann í viðtali í Rokklandi á Rás 2

Þessi vinur hans er ekki mikið í tónlist lengur, segir Guðlaugur, hann sé þó mikill músíkant og eigi raunar eitt lag á plötunni. 

„Svo fer hann bara í viðskiptalífið en segir við mig einn daginn: Nú verður þú að gefa út plötu, ég skal borga fyrir þig. Ég þurfti náttúrulega að fá spark í rassinn, ég átti þarna fullt af lögum sem hefðu bara farið ofan í skúffu. Ég hefði aldrei tekið þetta skref sjálfur.“

Nemendur Guðlaugs vita ekki af tónlistarferlinum og þannig vill hann hafa það sem lengst. „Það er ágætt að það sé ekki vitað. Ég ætla að halda þessu aðskildu eins lengi og ég get.“ Það er þó ólíklegt að það vari lengi.

Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Bony Man í Rokklandi á Rás 2.