Viðgerðum við Þverá lýkur ekki á næstunni

11.10.2021 - 09:11
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Göran Gros Ólafsson - Rúv
Viðgerðum á Eyjafjarðarbraut eystri, sem varð fyrir skemmdum í vatnavöxtunum í sumar, er enn ekki lokið og mun líklegast ekki ljúka fyrr en næsta vor. Þangað til þarf að notast við gamla einbreiða brú sem ekki er fær stærri flutninga- og vörubílum.

Ræsið brotið niður að hluta

Í lok júní urðu miklar skemmdir á veginum sem lá yfir ræsi Þverár. Í kjölfarið var ákveðið að taka veginn í sundur og grafa ræsið upp. Kom þá í ljós að það hafði orðið fyrir talsverðum skemmdum. Heimir Gunnarsson verkstjóri hjá Vegagerðinni segir að verið sé að brjóta ræsið niður og að helmingurinn verði byggður upp á nýtt. „Það tekur tíma, eigum við ekki að segja að þetta verði komið fyrir sumarið.“
 

Óþægilegt í myrkri og hálku

Þangað til þurfa meðal annars bílstjórar mjólkurbílsins að aka yfir gömlu brúna til að sækja mjólk fram í Eyjafjörð. Þeim þykir óþægilegt að aka yfir brúna þar sem aðkoman að henni er slæm og brúin sjálf mjög þröng. Þegar myrkur og hálka vetrarins færist yfir verður ástandið sýnu verra.

Heimir segir að starfsmenn Vegagerðarinnar reyni allt til að gera brúna öruggari yfirferðar og hafa þeir komið upp sérstökum merkingum sem og ljósabúnaði. Hins vegar hafi einhver séð ástæðu til að taka skiltin og ljósin ófrjálsri hendi oftar en einu sinni.

 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir