Ungt lið Íslands vann öruggan sigur á Liechtenstein

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Ungt lið Íslands vann öruggan sigur á Liechtenstein

11.10.2021 - 18:03
Ísland vann öruggan 4-0 sigur gegn Liechtenstein í undankeppni HM karla í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Albert Guðmundsson gerði tvö mörk úr vítum, Stefán Teitur Þórðarson gerði sitt fyrsta A-landsliðsmark og Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sitt annað landsliðsmark.

Arnar Þór Viðarsson gerði fjórar breytingar á liðinu. Brynjar Ingi Bjarnason var sá eini úr varnarlínunni frá síðasta leik sem byrjaði í dag og enn fleiri yngri og reynsluminni leikmenn komu inn fyrir þá eldri sem duttu út.

Íslenska liðið stýrði leiknum frá fyrstu mínútu og á 18. mínútu fékk Jón Dagur Þorsteinsson boltann úti vinstra megin og setti hann fyrir markið, þar sem Stefán Teitur Þórðarson var og skallaði boltann í netið og kemur Íslandi í forystu. Hans fyrsta A-landsliðsmark. Á 33. mínútu fékk Ísland svo vítaspyrnu þegar hendi var dæmd inni í teig. Albert Guðmundsson fór á vítapunktinn, og renndi boltanum pollrólegur framhjá Benjamin Buchel í markinu, og staðan þá 2-0 Íslandi í vil og þannig stóð í hálfleik.

Á 63. mínútu braut Martin Marxer á Þóri Jóhanni Helgasyni og hlaut fyrir það sitt annað gula spjald og þar með rautt. Það dró svo til tíðinda 15 mínútum síðar þegar brotið var á Sveini Aroni innan teigs og vítaspyrna dæmd. Aftur fór Albert á punktinn, og skoraði, og staðan þá 3-0. Tíu mínútum síðar átti Andri Fannar Baldursson svo frábæra sendingu inn á teiginn á Svein Aron sem skallaði boltann á bróður sinn Andra Lucas Guðjohnsen sem afgreiddi hann laglega í netið eftir að hafa komið inn á stuttu áður.

4-0 sigur Íslands niðurstaðan og þetta var fyrsti sigur Íslands á heimavelli undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar. Ísland er nú með átta stig í riðlinum, í næst neðsta sætinu, en Liechtenstein með eitt á botninum.