Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skipt um alla forystusveit Kristilegra demókrata

11.10.2021 - 17:27
epa09518632 Christian Democratic Union (CDU) Secretary General Paul Ziemiak speaks during a press conference in Berlin, Germany, 11 October 2021. The CDU top personnel met for committee meetings on 11 October 2021, and decided unanimously to to elect the an entire new party executive at a party congress, Secretary General Ziemiak said.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN / POOL
Paul Ziemiak, aðalritari Kristilegra demókrata. Mynd: EPA-EFE
Ný forystusveit Kristilegra demókrata í Þýskalandi verður kjörin fyrir næstu áramót. Fylgið við flokkinn var í sögulegu lágmarki í þingkosningunum í síðasta mánuði og ljóst þykir að uppstokkunar er þörf.

Paul Ziemiak, aðalritari Kristilegra demókrata, greindi þýskum fjölmiðlum frá því í dag að forystufólk flokksins væri sammála um að niðurstaða þingkosninganna hefði verið óviðunandi. Því hefði í dag verið ákveðið að endurnýja alla forystusveitina.

Það fer þannig fram að 30. október hittast formenn flokksins í öllum sambandsríkjunum til að ræða hversu mikil áhrif baklandið á að hafa í valinu. Þremur dögum síðar kemur flokksforystan saman til að ráða ráðum sínum um hvenær flokksþing verður haldið þar sem nýtt forystufólk verður kosið. Stefnt er að því að það verði fyrir áramót. Þýska dagblaðið Bild segir í dag að þingið verði líklega sjötta til þrettánda desember og Dresden komi helst til greina sem fundarstaður.

Kristilegir demókratar voru við völd í sextán ár undir styrkri stjórn Angelu Merkel, fráfarandi kanslara. Fylgistapið í kosningunum á dögunum er aðallega skrifað á Armin Laschet, arftaka hennar. Hann hvatti í síðustu viku til þess að allt flokksstarfið yrði stokkað upp og skipt um forystu. Jafnframt bauðst hann til að segja af sér.