Formennirnir halda spilunum þétt að sér

Mynd með færslu
 Mynd: grafík: Geir Ólafsson - RÚV
Formenn ríkisstjórnarflokkanna sitja nú á fundi í Ráðherrabústaðnum þar sem rætt er um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Formennirnir segja viðræður ganga vel, en halda spilunum þétt að sér. Ekki hefur verið rætt um annað en að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra og ekki er farið að ræða skiptingu ráðuneyta.

Formennirnir þrír hafa fundað reglulega þær rúmlega tvær vikur sem liðnar eru frá alþingiskosningunum 25. september. Fyrir fundinn sem hófst á 12. tímanum í morgun sagði Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins að formennirnir væru sammála um að klára þyrfti ýmis mál sem ekki tókst að ljúka á síðasta kjörtímabili.

„Við höfum verið að ræða hluti eins og rammaáætlun, orkumál of friðlýsingar. Það verður bara að segjast eins og er að við verðum að fara í aðra átt á þessu kjörtímabili en því síðasta,“ sagði Sigurður Ingi fyrir fundinn.  Klára málin? „Já.“

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna sagði fyrir fundinn að ekki væri byrjað að ræða um verkaskiptingu og skiptingu ráðuneyta.

„Við erum enn að tala saman, við þrjú og áttum fundi með okkar þingflokkum fyrir helgi. Við vinnum okkur hægt og bítandi í gegnum einstaka málaflokka,“ sagði Katrín.

„Við eigum góða fundi og ætlum ekki að halda þá fyrir opnum dyrum. Við erum með hugmyndir fyrir næstu ár sem verðskulda það að við gefum okkur nokkra daga til að kortleggja helstu áherslur,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. 

„Við erum að ræða saman um að Katrín leiði áfram. Það hefði  verið svolítið sérstakt að skipta um forsætisráðherra í sama flokkasamstarfi, þó það hefði ekki verið útilokað,“ sagði Bjarni.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti forseta Íslands hafa forseti og forsætisráðherra ekki fundað um stöðu stjórnarmyndunarviðræðna síðan 1. október og engir slíkir fundur eru á dagskrá.