Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Formaður kjördæmaráðs Miðflokksins segir af sér

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Óskar Herbert Þórmundsson, formaður kjördæmaráðs Miðflokksins í Suðurkjördæmi, sagði af sér á fundi kjördæmaráðsins á laugardaginn. Hann ákvað að gera það vegna þess hvernig brotthvarf Birgis bar að, enda telur hann sig bera ábyrgð á uppstillingu listans í kjördæminu.

Óskar segist þó alls ekki vera að yfirgefa flokkinn. Hann vill að öðru leyti engu bæta við ályktun kjördæmaráðs frá því á laugardag. Varaformaður kjördæmaráðsins, Magnús Haraldsson tók við sem formaður þess. 

Ekki hefur tekist að ná tali af Ernu Bjarnadóttur, varaþingmanni Birgis Þórarinssonar í Suðurkjördæmi, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þegar Birgir tilkynnti útgöngu sína úr Miðflokknum á laugardag kvaðst hann hafa ráðfært sig við Ernu sem hann sagði verða varaþingmann hans áfram.

Birgir segir ástæður brotthvarfsins vera Klausturmálið svonefnda auk þess skipulögð aðför hafi verið gerð að honum í aðdraganda kosninganna í september.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins þvertók í samtali við fréttastofuna um helgina að Birgir hafi sætt aðför, brotthvarf hans sé vonbrigði og svik við flokkinn og kjósendur hans.

Formaðurinn hafði ekki rætt við Ernu Bjarnadóttur um helgina og það sama á við um Heiðbrá Ólafsdóttur sem skipaði þriðja sæti á lista flokksins í kjördæminu.

Hún vill ekki tjá sig frekar um vendingar helgarinnar að svo stöddu. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, bauð Birgi velkominn í hópinn en ekki náðist í Guðrúnu Hafsteinsdóttur oddvita flokksins í Suðurkjördæmi við vinnslu fréttarinnar.