Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Flokkaskipti Birgis fordæmalaus

11.10.2021 - 22:27
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Birgir Þórarinsson er fyrsti þingmaðurinn í sögu lýðveldisins til að skipta um þingflokk áður en þing kemur saman eftir kosingar. Enn er óvíst hvort Erna Bjarnadóttir fylgi Birgi yfir í Sjálfstæðisflokkinn.

Birgir Þórarinsson sagði um leið og hann tilkynnti að hann væri genginn í Sjálfstæðisflokkinn að Erna Bjarnadóttir, sem var í öðru sæti lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi, styddi ákvörðun hans. Þegar fréttastofa ræddi við hann um helgina mátti ekki skilja hann öðruvísi en að hún ætlaði sömu leið. Hún er öflugur varaþingmaður og hefur staðið fyrir mörg góð málefni og telur að hún nái best framgangi með þau mál með því að vera í þá náttúrlega í öflugum og stórum þingflokki þar sem er góður málefnalegur samhljómur,“ sagði Birgir á laugardaginn.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Ernu frá því Birgir tilkynnti um ákvörðun sína. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa samtöl átt sér stað milli Ernu og Miðflokksmanna en ekki hefur fengist uppgefið hvað í þeim fólst. Þá hefur Alþingi ekki borist tilkynning um að breyting hafi orðið á högum Ernu. Fréttastofa reyndi einnig að ná tali af Birgi í dag án árangurs.

Sá fyrsti til að skipta áður en þing kemur saman

Það kemur reglulega fyrir að þingmenn skipti um flokk á miðju kjörtímabili og er þetta í 16. skipti sem það gerist á þessari öld, samkvæmt svörum Alþingis við fyrirspurn fréttastofu. Mál Birgis er hins vegar fordæmalaust því aldrei áður hefur þingmaður gengið til liðs við annan flokk áður en þing hefur komið saman eftir kosningar. Hér að neðan má sjá lista yfir þingflokkaskipti frá aldamótum.

3. mars 2003 – Kristján Pálsson segir sig úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

11. maí 2005. – Gunnar Örlygsson tilkynnir úrsögn sína úr þingflokki Frjálsynda flokksins og ákvörðun um að ganga til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokks.

21. janúar 2007 – Valdimar L. Leósson gengur til liðs við Frjálslynda flokkinn. Hann hafi verið utan flokka frá 20. nóvember  2006 frá því hann sagði sig úr þingflokki Samfylkingarinnar.

19. febrúar 2007 – Kristinn H. Gunnarsson gengur í þingflokk Frjálslynda flokksins. Viku áður hafði hann sagt sig úr þingflokki Framsóknarflokks.

13. mars 2009 – Karl V. Matthíasson tilkynnir á þingfundi að hann hefði gengið úr þingflokki Samfylkingarinnar og gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn.

8. september 2010 – Þráinn Bertelsson gengur í þingflokk VG. Hann var kosinn á þing fyrir Borgarahreyfinguna en sagði sig úr þingflokki hennar 17. ágúst 2009.

21. mars 2010 – Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir segja sig úr þingflokki VG og sitja utan flokka það sem eftir lifir kjörtímabils.

1. júní 2011- Ásmundur Einar Daðason gengur til liðs við þingflokk Framsóknarflokks efti rað hafa sagt sig úr þingflokki VG í apríl það sama ár.  

2. september 2011 – Guðmundur Steingrímsson segir sig úr þingflokki Framsóknarflokksins.

11. október 2012 – Róbert Marshall segir sig úr þingflokki Samfylkingar og tilkynnir að hann muni ganga til liðs við Bjarta framtíð Guðmundar Steingrímssonar.

26. febrúar 2019 – Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson ganga í þingflokk Miðflokksins, þremur mánuðum eftir að þeir gengu úr Flokki fólksins vegna Klaustursmálsins.

16. desember 2020 – Rósa Björk Brynjólfsdóttir gengur í þingflokk Samfylkingarinnar eftir að hafa gengið úr þingflokki VG þremur mánuðum áður.

 10. febrúar 2021 – Andrés Ingi Jónsson gengur í þingflokk Pírata. Hann hafði verið utan flokka frá því í nóvember 2019 eftir að hann sagði sig úr þingflokki VG.