Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun

11.10.2021 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann fyrir að nauðga fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður í október árið 2019 í fimm ára fangelsi. Þau slitu samvistum skömmu áður en nauðgunin átti sér stað.

Nauðgunin átti sér stað á heimili mannsins haustið 2019. Hann og konan höfðu slitið samvistum nokkrum vikum áður en hún heimsótti hann til að sækja dót frá barni þeirra. Lýsingar brotaþola á málsatvikum eru nákvæmar og framburður hennar stöðugur og skýr. 

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa stungið fingri sínum í leggöng konunnar, beitt hana ofbeldi og nauðung og haft við hana samræði án hennar samþykkis. Konan hlaut áverka á kynfærum og eymsli á hnakka. 

Framburður brotaþola fær stoð í þeim gögnum sem rakin hafa verið og hefur hann verið stöðugur um þau atriði sem máli skipta, þ. á m. um að samræðið hafi verið gegn vilja hennar og ákærði hafi ekki virt þá afstöðu hennar. Þetta hafi hún ítrekað tjáð ákærða með orðum auk þess sem hún hafi ýtt ákærða frá sér og sagt honum að hann væri að meiða hana. Er ósannað að brotaþoli hafi veitt samþykki sitt með annars konar tjáningu.

Maðurinn hafi til að mynda sett sig í samband við konuna skömmu eftir að brotin áttu sér stað  með skilaboðum og beðist afsökunar, sem bendir „...samkvæmt orðanna hljóðan til þess að ákærði telji sig hafa gert eitthvað á hlut brotaþola.,“ eins og það er orðað í dómnum.

Áverkar á konunni styðja einnig við framburð hennar en hinn ákærði gat ekki gefið neinar skýringar á þeim. Því var það mat dómsins að framburður hans hvað þetta varðar geti ekki talist trúverðugur. Auk líkamlegra áhrifa nauðgunarinnar glímdi konan við andlega erfiðleika í kjölfar nauðgunarinnar. 

Maðurinn hefur þrisvar verið dæmdur fyrir kynferðisbrot. Árið 2014 var hann dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti og aftur árið 2016, þá í 20 mánaða fangelsi. Þau brot áttu sér stað áður en maðurinn náði 18 ára aldri. Árið 2019 var hann svo dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi í Landsrétti. Var litið til fyrri dóma við ákvörðun refsingar, en ákvæði í lögum gefa heimild til að hækka refsingu um allt að helming ef sakborningur hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot áður. 

Auk framangreinds er við ákvörðun refsingar ákærða litið til þess að brot ákærða var gróft, það olli brotaþola líkamlegum áverkum auk langvarandi andlegrar vanlíðanar sem lýst er í fyrirliggjandi vottorðum og vætti sálfræðinga er henni sinntu, sbr. 1. og 2. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Einnig lítur dómurinn til 6. töluliðar sama lagaákvæðis en ákærði lét sér ekki segjast þrátt fyrir að brotaþoli hafi ítrekað látið í ljós að hún vildi ekki hafa samræði við hann. Þá lítur dómurinn sérstaklega til þeirra nánu tengsla sem voru á milli þeirra en brotaþoli og ákærðu höfðu nýverið slitið sambúð sinni og […], sbr. 3. mgr. 70. gr. sömu laga og að með broti sínum braut ákærði gróflega gegn kynfrelsi hennar.“ segir í dómnum.

Tekið er fram að dómurinn sé mildaður vegna óhæfilegs dráttar á meðferð málsins. 2 ár séu liðin frá því að nauðgunin átti sér stað en rannsókn málsins lauk í maí 2020 en það var ekki sent til héraðssaksóknara fyrr en í desember í fyrra. 

Maðurinn var dæmdur í fimm ára fangelsi og til að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur auk vaxta og til að greiða allan sakarkostnaðar. 

Dóminn má lesa hér. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV