Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins segir að innbundnar bækur hafi ekki verið prentaðar á Íslandi um nokkurt skeið eða frá því að bókbandsvél prentsmiðjunnar Odda var seld úr landi. Kiljur eru mikið prentaðar á Íslandi.
Hrávöruverð hefur hækkað á heimsmarkaði og pappírsframleiðsla fer ekki varhluta af því. Egill segir hækkunina hafa nokkur áhrif.
„Verðhækkun á pappír sýnist okkur vera á bilinu 30 til 40 prósent. Við gerðum hins vegar ráðstafanir strax í byrjun sumars og keyptum okkur pappír og tryggðum okkur þannig.“
Egill segir langt í frá að dagar pappírsbóka séu taldir, þær lifi mjög góðu lífi en bækur sæki jafnframt mjög fram á stafrænu formi. Hann segir á annað hundrað bókaútgefanda starfandi á Íslandi.
„Það er búið að spá bókinni andláti svo oft að ég satt að segja er löngu búinn að leggja það á hilluna að spá prentaðri bók andláti. Það eru fréttir af ótímabæru andláti.“
Enn er bókin helsta afþreyingin og jólagöfin
Egill segir bækur enn vera helstu afþreyingu Íslendinga og langvinsælustu jólagjöfina. Verð bóka breytist lítið, mögulega færist það eitthvað upp eða niður.
„Bækur hafa lækkað verulega í verði, raunverði á undanförnum á árum og ég á ekki von á því að það verði miklar verðhækkanir núna, það kæmi mér verulega á óvart ef verð hækkar mikið.“
Ýmislegt getur gerst í aðdraganda bókaflóðsins. Gámur með nokkrum útgáfubókum Forlagsins á leið til varð eftir á hafnarbakka í Danmörku. Egill segir það tefja útgáfu nokkurra titla um nokkra dag. „Jólabókaflóðið verður á sínum stað.“
Egill segir bókaútgáfu á Íslandi mjög lifandi, einkum sé ánægjulegt hve margir gefa hér út bækur. Undanfarinn áratug gáfu yfir hundrað út nýja bók hvert ár og þannig verði það áfram í jólabókaflóðinu.
Hann vonast til að jólabókavertíðin verði óskaplega góð, fólk ferðist minna til útlanda í verslunarferðir en í meðalári. Því gerir hann ráð fyrir að bókin haldi velli og verði á sínum stað.