
10 þúsund skjálftar á tveimur vikum við Keili
Skjálftahrinan við Keili heldur áfram að sögn Einars Bessa Gestssonar náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir skjálftana sveiflukenndari en í fyrstu.
500 skjálftar voru á svæðinu í gær þar af einn sem var þrír komma tveir að stærð á tíunda tímanum í gærkvöld.
Einar Bessi segir engum blöðum um það að fletta að jarðskjálftavirkni við Keili haldi áfram. Hún sé engu að síður sveiflukenndari en verið hafi.
Skjálftinn í gærkvöld fannst meðal annars vel í Hafnarfirði. Um vika er síðan skjálfti yfir þremur að stærð mældist nærri Keili.
Heldur hefur dregið úr jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga síðustu daga. Jarðhræringarnar dagana á undan minntu nokkuð á ástandið áður en gos hófst í Geldingadölum, en skjálftarnir nú eiga upptök sín nær Keili. Þeir finnast síður í Grindavík og hafa fundist betur í Vogum og í Hafnarfirði.
Einar Bessi segir síðustu gögn um landris á svæðinu ekki sýna vísbendingar um að slíkt. Engu að síður sé ekki unnt að útiloka að kvika sé á ferð á meira dýpi. Ekki sé hægt að útiloka eldgos á svæðinu.