Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Páfi boðar samráð og breytingar innan kirkjunnar

10.10.2021 - 20:01
epa09516369 Pope Francis presides the Holy Mass for the opening of the Synodal Path in Saint Peter's Basilica at the Vatican City, 10 October 2021.  EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Frans páfi boðar einhverjar mestu umbótahugmyndir sem sést hafa innan kaþólsku kirkjunnar um sex áratuga skeið. Næstu tveimur árum verður varið til að kynna og eiga samráð við hverja einustu kaþólska sókn veraldar um hvert kirkjan stefnir til framtíðar. Fyrstu skrefin voru stigin við messu í Páfagarði nú um helgina.

Næsta árið verður almenningi í öllum sóknum og biskupsdæmum gert kleift að ræða allt sem því í brjósti býr. Í kjölfarið funda biskupar um hvers þeir urðu áskynja og að lokum verður haldin mikil ráðstefna um framtíðarstefnu í Páfagarði í október á næsta ári.

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins kemur fram að einhverjir Kaþólikkar vonist til að breytingar leiði til þess að konur hljóti prestvígslu, að klerkar fái að ganga í hjónaband og samkynja sambönd verði viðurkennd.

Aðrir eru sagðir óttast að breytingarnar grafi undan lögmálum kirkjunnar og að þær beini sjónum frá raunverulegum vandamálum á borð við djúpstæða spillingu og minnkandi kirkjusókn.

Frans páfi spurði við messu í Péturskirkjunni hvort Kaþólikkar væru reiðubúnir til að taka þátt í þeirri ævintýraför sem umbæturnar væru. „Eða óttumst við það ókunna og berum fyrir okkur margtuggðar afsakanir um fánýti breytinga eða fullyrðum við að þetta hafi alltaf verið gert svona?“