Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Elítur heimsins eru blóðsugur segir stjórnmálafræðingur

10.10.2021 - 15:15
Mynd: RÚV / RÚV
Íslenskar elítur eru tiltölulega fjölmennar, til dæmis samanborið við Danmörku. Stjórnmálafræðiprófessor segir elítukerfi Íslands tiltölulega opið í alþjóðlegum samanburði.

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor, höfundur bókarinnar Elítur og valdakerfi á Íslandi, segir elítu Íslands tiltölulega stóra, til dæmis í samanburði við Danmörku.

Sú danska telji um tvö þúsund manns en að 846 tilheyri íslenskum elítum. Gunnar segir ekkert rétt svar við stærð elíta, og erfitt sé að kortlegga þær. Hann hafi fyllt inn í það kort sem sýndi dönsku valdasamsöfnunina með íslenskum nöfnum sem hafi gefið framangreinda tölu. 

Það samsvari ekki stærðarmun landanna en Gunnar segist ekki geta dregið miklar ályktanir af því. Hann segir fáar fjölskyldur hafa stjórnað landinu á nítjándu öld, Ísland hafi í raun verið ættveldi tengdra fjölskyldna en kerfi stéttaflokka og hagsmunaaðila í atvinnulífi hafi síðar vaxið.

Það hafi verið stórar elítur í harðri samkeppni. Hann segist hafa greint átta elítuhópa sem sagt sé frá í bókinni.

„Framsóknarflokkurinn og Sambandið og svo einkaframtakið og Sjálfstæðisflokkurinn voru kannski stóru aðilarnir. Þegar fer að halla á tuttugustu öldina fáum við meira aðskilda elítuhópa. Þeir verða takmarkaðir við sín svið og fæstar hafa umtalsverð áhrif út fyrir sitt kjarnasvið.“

Elítuhópar fylgja öllum samfélögum

Gunnar Helgi segir elítuhópa fylgja öllum samfélögum, alltaf séu einhverjir í valdastöðum því nútímasamfélögum sé þannig stjórnað. Elítukerfið geti verið heilbrigt eða sjúkt, víðast hvar í heiminum sé það slæmt. 

„Elítur eru blóðsugur í flestum samfélögum nútímans og spurningin sem ég er að glíma við er hvort þannig sé það á Íslandi.“ Niðurstaða Gunnars er að í raun og veru sé elítukerfið hérlendis ekki slæmt. 

Það merki þó ekki að allir eigi jöfn tækifæri í lífinu. Völd stjórnmálaelítunnar hafi minnkað en viðskiptaelítunnar aukist. Hún sé lokaðri konum en Gunnar segist nota stöðu kvenna sem mælikvarða á hvort elítur séu opnar eða lokaðar.

Konum hafi fjölgað í stjórnmála- og listaelítu landsins undanfarin 40 ár en ekki eins mikið í viðskiptalífinu og akademíunni. Íslenskar elítur séu mjög opnar í alþjóðlegum samanburði og að það eigi einnig við um kynjaþáttinn. 

Viðtalið við Gunnar Helga Kristinsson má finna í heild sinni í meðfylgjandi spilara. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV