Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vangaveltur um Mannréttindadómstól ótímabærar

09.10.2021 - 07:11
Mynd: Stjórnarráð Íslands / Stjórnarráð Íslands
Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar fer nú yfir kærur og athugasemdir sem borist hafa vegna alþingiskosninganna 25. september. Fimm frambjóðendur, sem hefðu fengið jöfnunarsæti miðað við fyrri niðurstöðu í Norðvesturkjördæmi, hafa kært endurtalningu til Alþingis og auk þess hefur lögreglu borist kæra. Það verður á endanum kjörbréfanefndar að ákveða hvort kjörbréfin sem Landskjörstjórn gaf út fyrir viku séu gild eður ei en niðurstaðan er alls ekki augljós, segir Hafsteinn Þór Hauksson dósent.

Birgir Ármannsson formaður undirbúningsnefndarinnar hefur sagt að vinna þurfi eins hratt og auðið er, en ekki verði tekin afstaða til einstakra kærumála fyrr en búið sé að fara yfir atburðarásina í heild. Kærufrestur rennur út fjórum vikum eftir kosningarnar. 

Kærurnar flækja augljóslega störf undirbúningsnefndarinnar. Hafsteinn, sem er dósent í almennum lögum og stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, tekur eftir því að í undirbúningsnefndinni nú sitja engir jöfnunarþingmenn og engir úr Norðvesturkjördæmi. Þannig sé verið að skapa smá fjarlægð og hann gengur út frá því að sama fólk sitji svo í kjörbréfanefndinni sjálfri sem verður skipuð þegar Alþingi kemur saman. Undirbúningsnefndarinnar bíður ærinn starfi við rannsókn sína á hvort þingmenn séu löglega kjörnir. Hafsteinn vonar að nefndin viðhafi vandaða málsmeðferð áður en hún kemst að niðurstöðu.

Í rauninni áður en að málsatvik eru að fullu upplýst er auðvitað erfitt að fabúlera eitthvað um málið og þarf kannski gæta sín á því að þeir sem telja niðurstöðuna hvað augljósasta og hafa uppi stærstu orðin í þeim efnum eru nú kannski stundum fólk, sem hefur mjög ríka hagsmuni af niðurstöðunni.

Hafsteinn segir að þingið geti jafnvel leitað gagna víðar og hann telur það mjög gott ef hægt er fá aðstoð lögreglunnar ef hún hefur einhver gögn undir höndum sem gætu nýst til að upplýsa málið og vísar þar til meðferðar kjörgagna við talningu og endurtalningu í Norðvesturkjördæmi. Lögreglan geti aðstoðað stjórnvöld við að upplýsa málsatvik en það er þingsins að kveða upp úr um lögmæti kjörbréfa. Til lögreglu er hægt að kæra brot á kosningalöggjöfinni og þá með hugsanlegt sakamál í huga á hendur þeim sem hafi mögulega brotið lögin en það hefur ekkert með gilda eða ógilda kosningu að gera. 

Það er ekki þannig að allir ágallar á framkvæmd kosninga leiði sjálfkrafa til ógildingar á alþingiskosningum. Því fer fjarri og raunar tel ég að menn hafi nú kannski gengið fulllangt í túlkunum sínum á til dæmis dómi Hæstaréttar varðandi kosningar til stjórnlagaráðs. Það voru auðvitað ekki alþingiskosningar og þess vegna heyrði það undir Hæstarétt. En því fór fjarri að það væri verið að ógilda þær kosningar af því að kjörkassar væru úr plasti en ekki tré og einhverju slíku eins og maður hefur heyrt fleygt í umræðunni.

Þar beindust aðalathugasemdir Hæstaréttar að því að kjörseðlar væru rekjanlegar segir Hafsteinn; að því hvort væri mögulegt að tengja einstök atkvæði ákveðnum kjósendum. Við ákvörðun nú getur þingið litið til þess hvernig dómstólar hafa túlkað kosningalöggjöf en þar séu línurnar hins vegar ekkert alveg hreinar í fordæmunum.

Þá eru ekkert alveg hreinar línur hvaða mælikvörðum er beitt, það er stundum talað um annars vegar almennan mælikvarða eða sértækan eða sérstakan. Það hvort þú þurfi í rauninni að sýna fram á að ágallarnir hafi leitt til þess að kosningarnar fóru öðruvísi en þær hefðu annars farið eða hvort það nægilegt sé að sýna fram á að það hafi átt sér stað einhver mistök, sem séu almennt til þess fallin að hafa slík áhrif. 

Hafsteinn segir að ef þingið staðfestir kjörbréfin sem Landskjörstjórn gaf út sé málinu í raun lokið í íslenskri stjórnskipan og í rauninni þá ekki mikið meira um það að segja. Lýsi það kosninguna ekki gilda hafi það ólíkar leiðir um að velja í kjölfarið. Ekkert útiloki, ef það kemst að þeirri niðurstöðu að réttilega hafi verið staðið að geymslu atkvæðanna, að talið verði aftur. Allt verði þó að hafa sinn gang. 

Ótímabært að velta fyrir sér aðkomu Mannréttindadómstóls Evrópu

Ef svo færi að kjörbréfin yrðu staðfest en þá leitað til Mannréttindadómstóls Evrópu þá myndi það mál, sem Hafsteinn telur ótímabært að ganga út frá í ljósi þess að niðurstaðan er ekki einu sinni fengin, snúast um stjórnskipun Íslands og hvort hún fellur að Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann efast um hversu hjálplegt er að velta því fyrir sér hver áhrif á hugsanlega lagasetningu þess þings yrðu en segir þó þau lög sem þingið setti myndu standa. 

Ég minnist þess nú að í kafla Ólafs Jóhannessonar um stjórnskipulegan neyðarrétt er fjallað um það þegar þingið frestaði kosningum til Alþingis í seinni heimsstyrjöldinni. Þá voru uppi deilur um hvort því hefði verið það heimilt á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar. Þá leysti hann nú úr því máli á þeim grundvelli að Hæstiréttur dæmdi síðan í kjölfarið eftir þeim lögum sem það þing setti og þar með var það mál afgreitt.

Frambjóðandi Pírata sem fékk ekki jöfnunarsæti í Reykjavíkurkjördæmi norður þegar niðurstöður í Norðvesturkjördæmi breyttust við endurtalningu er meðal þeirra sem hafa kært kosninguna og telur að kjósa þurfi aftur í öllu landinu en ekki aðeins í einu kjördæmi. Annað sé ekki lýðræðislegt. 

Uppkosning bara þar sem ágallar finnast

Hafsteinn segir að íslensk stjórnskipan geri ráð fyrir því að ef ágallar eru svo miklir á framkvæmd kosninga að rétt sé að fara í uppkosningu þá sé það sama kosning, sömu frambjóðendur og sömu kjósendur - en er hægt að kjósa aðeins í einu kjördæmi? 

Það er þannig að íslensk stjórnskipun gerir ráð fyrir einmitt þessu, að ef að ágallarnir eru svo alvarlegir að rétt er að ógilda kosninguna og fara í uppkosningu þá er þetta einfaldlega úrræðið.

Þó að það gefi augaleið að kosning í einu kjördæmi fari fram á grundvelli annarra upplýsinga en lágu fyrir 25. september sé það engu að síður veruleikinn. 

Fordæmi til um margt úr sveitarstjórnarkosningum

Það þarf að fá niðurstöðu í þetta mál eins fljótt og auðið er. Hafsteinn fagnar því að menn segist ætla að vanda sig og ekki hrapa að niðurstöðu. Þó að þetta sé ný staða hvað varðar alþingiskosningar, það er að álitaefni er ekki um einstök vafaatkvæði heldur framkvæmd kosninganna og talningarinnar, þá hefur reynt á ýmislegt fyrr í sveitarstjórnarkosningum til dæmis. Því séu menn ekki á algerlega ókortlögðu svæði. 

Hafsteinn Þór verður gestur undirbúningsnefndarinnar á opnum fundi á mánudag. 

 

annakj's picture
Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV