Eftir aðgerðina „þá var þetta svolítið búið“

Mynd: RÚV / RÚV

Eftir aðgerðina „þá var þetta svolítið búið“

09.10.2021 - 12:27

Höfundar

GDRN átti sér draum um að verða fótboltastjarna. Aðeins fimmtán ára gömul lék hún með meistaradeild Aftureldingar og íþróttin átti hug hennar allan. Það var mikið áfall fyrir hana að slasast og neyðast til að leggja skóna á hilluna, en reynslan kenndi henni að verja tíma sínum í það sem henni þykir gaman.

Stórsöngkonan GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð, ætlaði sér ekki alltaf að slá í gegn í tónlist, því fótboltinn var það sem hún ætlaði sér að ná frama í. Hún stefndi langt. „Ég ætlaði að verða fótboltastjarna en það gekk ekki. Ég eyðilagði á mér hnéð og þar með var fótboltaferillinn úti,“ segir GDRN sem var gestur Matthíasar Más Magnússonar í Tónatali í gær, þar sem hún sagði sögur og lék lög fyrir áhorfendur.

Eftir tvær aðgerðir var draumurinn úti

Hún spilaði með Aftureldingu á sínum yngri árum og þótti ansi efnileg. „Ég var svolítið góð. Ég var fimmtán ára farin að spila í Pepsideildinni,“ rifjar hún upp. Sjálf hefur hún lítið fylgst með fótbolta en naut sín mikið á vellinum. Draumurinn um að verða fótboltastjarna varð hins vegar að engu þegar hún slasaði sig. „Ég var fimmtán ára þegar ég reif krossband og fór í aðgerð. Svo var ég í eitt og hálft ár í endurhæfingu og þá var það aftur liðþófinn og aftur aðgerð. Þá var þetta svolítið búið.“

Mynd: RÚV / RÚV
GDRN flutti meðal annars lagið Glory box með Portishead.

Komst að því að allt getur klikkað

Hún segir að nýr raunveruleiki hafi verið erfiður biti að kyngja. „Þegar maður er fimmtán ára finnst manni maður vera svolítið ódauðlegur. Það er ekki mikið að fara að klikka finnst manni,“ segir Guðrún Ýr sem lærði af vonbrigðunum. „Maður lærði snemma að maður getur lagt allt í eitthvað en það getur samt klikkað. Þá var ég bara já ókei, ég get kannski líka gert hluti sem mér finnst ekki skemmtilegir og lagt tíma og metnað í það og það getur líka klikkað. Það er alltaf þess virði að gera eitthvað sem mann langar að gera, jafnvel þó það klikki.“

Hún ákvað því að hella sér út í það sem henni þykir skemmtilegast, og nú gekk dæmið sannarlega upp. „Það var þannig sem tónlistin kom,“ segir Guðrún - sem ein skærasta stjarnan í tónlistarbransanum á Íslandi nú á dögum.

Allan þáttinn er hægt að horfa á hér í spilara RÚV.