Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Clausen bræður teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ

Mynd með færslu
 Mynd: ÍSÍ

Clausen bræður teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ

09.10.2021 - 19:50
Tvíburabræðurnir og frjálsíþróttamennirnir Örn Clausen og Haukur Clausen voru teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ í dag. Eru þeir 21. og 22. einstaklingurinn til að hljóta þá tilnefningu.

Örn og Haukur Clausen voru eineggja tvíburar og voru fæddir 8. nóvember 1928. Þeir voru lengi á meðal fremstu íþróttamanna þjóðarinnar og settu hvert metið á fætur öðru í frjálsum íþróttum. Örn setti samtals tíu Íslandsmet í grindarhlaupum og tugþraut. Hann náði tólfta sæti í tugþraut á Ólympíuleikunum í London 1948 en þá var Örn aðeins 19 ára. Árið 1949 sigraði hann í tugþraut á Norðurlandameistaramótinu í Stokkhólmi. Hann vann einnig silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í tugþraut 1950 og setti Norðulandamet í sömu grein 1951.Það ár átti hann næstbesta tugþrautarárangur í heimi. 

Haukur Clausen varð Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi árið 1947, þá aðeins 18 ára gamall, er hann hljóp á nýju Íslandsmeti, 21,9 sek. Hann keppti á Ólympíuleikunum í London 1948 og varð þrettándi í 100 metra hlaupi. Á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Brussel 1950 komst hann í úrslit í 100 metra hlaupi og varð í fimmta sæti. Sumarið 1950 setti hann Norðurlandamet í 200 metra hlaupi, 21,3 sek. Það var besti tími ársins í Evrópu og stóð Norðurlandametið í sjö ár en það var einnig Íslandsmet sem stóð í 27 ár. Haukur átti allmörg Íslandsmet í ýmsum frjálsíþróttagreinum. 

Haukur lést 1. maí 2003 og Örn lést 11. desember 2008.