Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vinsæl þáttaröð setur líf veitingasala úr skorðum

epa04890822 Netflix Corporate Headquarters in Los Gatos, California, USA, 20 August 2015. Netflix is an American provider of on-demand streaming media and DVD-by mail content to viewers in North America, Australia, New Zealand, South American and parts of
 Mynd: EPA

Vinsæl þáttaröð setur líf veitingasala úr skorðum

08.10.2021 - 06:25

Höfundar

Suðurkóresku sjónvarpsþáttaröðinni Squid Game verður lítillega breytt vegna ónæðis sem Kim Gil-young, eigandi matsölustaðar, hefur orðið fyrir. Kim vissi í fyrstu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hún fékk þúsundir símhringinga á dag fyrir örfáum vikum.

Skömmu síðar kom í ljós að símanúmer hennar var það nákvæmlega sama og birtist í þáttunum vinsælu, og virðast forvitnir áhorfendur hafa hringt í þúsundatali.

Kim segist í samtali við fréttastofu CNN hafa verið með þetta sama símanúmer í sextán ár. Hún fékk í fyrstu þúsundir símhringinga á dag, en undanfarið hefur hún fengið mörg hundruð símtöl og skilaboð daglega. Hún segir þetta verulegt rask og hún geti engan vegin einbeitt sér að daglegu lífi vegna áreitisins. Þá þarf hún að taka róandi lyf eftir að læknir greindi hana með alvarlega streituröskun.

Símhringingarnar sífelldu hafa einnig mikil áhrif á vinnu hennar. Hún notar eigið símanúmer í veitingarekstri sínum í Seongju, sem hún hóf fyrir um hálfu öðru ári. Nú er svo komið að viðskiptavinir hennar kvarta undan því að ná ekki sambandi við hana. Sjálf segist hún ekki geta séð muninn á því hverjir séu að hringja í fyrirtækið, og hverjir séu að gera símaat.

Ein vinsælasta þáttaröð í sögu Netflix

Netflix staðfesti við CNN að streymisveitan vinni með framleiðendum þáttaraðarinnar að því að leysa málið. Þar á meðal verða þau atriði klippt út þar sem símanúmerið sést. 

Kim segist hafa talað við fulltrúa þáttaraðarinnar. Hann bauð henni jafnvirði um 110 þúsund króna fyrir nýjum síma. Kim þáði ekki boðið, þar sem hún notar símann og númerið í rekstri sínum og hún hafi þegar greitt fyrir auglýsingar þar sem símanúmerið er birt. Kim segist telja að framleiðendur þáttanna yrðu auðmýkri ef þeir hefðu óvart notað símanúmer stórfyrirtækis í stað einstaklings. 

Þáttaröðin nýtur mikilla vinsælda um allan heim. Hún er víða í fyrsta sæti vinsældalista Netflix, og hefur verið það um skeið á Íslandi. Stjórnendur Netflix telja Squid Game jafnvel geta orðið vinsælustu þáttaröð allra tíma á veitunni.