Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Verður bylting á húsnæðismarkaði

08.10.2021 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Innan skamms verður í fyrsta skipti hægt að nálgast á einum stað upplýsingar um hversu mikið af íbúðarhúsnæði er í byggingu hverju sinni. Forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir þetta byltingu sem koma muni jafnvægi á markaðinn.

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun kynnti Hermann Jónasson, forstjóri HMS, stafrænar húsnæðisáætlanir sem opnaðar verða almenningi frá og með næstu áramótum. Þá munu liggja fyrir húsnæðisáætlanir allra sveitarfélaga í landinu.

„Við lítum á þetta sem algjöra byltingu í áætlanagerð í húsnæðismálum bæði til lengri og skemmri tíma. Þetta mun nýtast mjög vel sem stjórntæki til þess að takast á við þetta ójafnvægi sem ríkt hefur svo áratugum skiptir á Íslandi. Við höfum ekki haft yfirsýn um hvað er verið að byggja og hvað er í pípunum. En núna með þessu tæki liggja fyrir áætlanir sveitarfélaga, það liggur fyrir framvinda sérhvers verkefni líka,“ segir Hermann.

Þarna munu öll sveitarfélög landsins birta áætlanir sínar til að minnsta kosti fjögurra ára og sum til allt að átta ára. „Þannig að það er hægt að horfa svolítið inn í framtíðina. Þá geta byggingaraðilar, lánastofnanir og aðrir aðilar og sveitarfélög sem koma að þessum málaflokki skipulagt sig til lengri tíma og stuðlað að stöðugra framboði húsnæðis.“

Síðar í þessum mánuði verður svo mannvirkjaskrá, gagnagrunnur um íslensk mannvirki, sett á laggirnar. Henni er ætlað að veita yfirsýn yfir öll mannvirki í landinu. Hægt verður að fletta upp byggingarsögu hvers húsnæðis frá a til ö, til að mynda hvenær sótt var um byggingarleyfi, hvaða úttektir voru gerðar á byggingartíma og af hverjum, svo eitthvað sé nefnt. Segir Hermann að þessi tvö tæki verði þau mikilvægustu við stjórn húsnæðismarkaðar og muni um leið nýtast sem mikilvæg hagstjórnartæki.

Magnús Geir Eyjólfsson