Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skýla þarf fólki fyrir vaxta- og verðsveiflum

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Húsnæðismál eiga að snúast um að fólk komist í öruggt skjól en ekki þjóna fjármálaöflunum að mati Drífu Snædal forseta Alþýðusambands Íslands. Verkalýðshreyfingin geri kröfur á ríkið í húsnæðismálum - hver sem staða samninga sé. 

Undanfarna mánuði hefur aðeins dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði samhliða minna framboði. Í byrjun síðasta mánaðar voru um 1.500 íbúðir í sölu á landinu öllu en í maí í fyrra þegar þær voru hvað flestar voru 4.000 íbúðir auglýstar til sölu. Verð á sérbýli hefur hækkað áfram, meira en verð íbúða í fjölbýli, að því kom fram í síðustu mánaðarlegu samantekt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Þó að nú dragi aðeins úr hefur fasteignamarkaðurinn verið á flugi og svo mjög að Seðlabankinn hefur ítrekað gripið til aðgerða á árinu til að hægja þar á. Í vikunni voru stýrivextir hækkaðir í þriðja sinn í röð. Þenslan á fasteignamarkaðinum og vaxtahækkanirnar eru Drífu Snædal áhyggjuefni, hækkanirnar komi ekki sérlega á óvart en geti komið mjög illa við fólk sem hefur tekið fasteignalán á breytilegum vöxtum, þar geti greiðslubyrðin þyngst um 20 þúsund krónur á mánuði til dæmis á um 50 milljón króna láni. 

Verðhækkanir á húsnæðismarkaði hafa kynt undir verðbólgu á árinu og þess vegna hefur Seðlabankinn farið í sínar aðgerðir. Drífa segir að reyndar greini fólk á um hvort húsnæðisliðurinn einn knýi verðbólguna áfram en ljóst sé að verkalýðshreyfingin geri kröfu á ríkið í húsnæðismálum. 

Það er kannski ágætt að segja það núna þegar stjórnarmyndunarviðræður eru í gangi. Við gerum kröfu á ríkið hvort sem samningar eru lausir eða ekki. Húsnæðismál eru eitt stærsta úrlausnarefni stjórnvalda hverju sinni. Við vorum með ákveðin loforð í lífskjarasamningunum sem hafa ekki gengið eftir. Ég veit ekki hversu mikil stemmning er að fara hengja kjarasamninga á loforð sem verða kannski uppfyllt og kannski ekki. 

Húsnæðismálin hafi verið stór þáttur í kjaramálum verkalýðshreyfingarinnar og verði það áfram.