Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skora á Icelandair að draga uppsögn hlaðkonu til baka

08.10.2021 - 15:11
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þrjú stéttarfélög flugstétta hafa lýst yfir stuðningi við baráttu Ólafar Helgu Adolfsdóttur, trúnaðarmanns Eflingar á Reykjavíkurflugvelli, sem Icelandair sagði upp í miðjum viðræðum um kjaramál. Félögin hafa skorað á Icelandair að draga uppsögn hennar til baka.

Fréttablaðið hefur fjallað um uppsögn Ólafar Helgu, sem var eina hlaðkona Reykjavíkurflugvallar.

Flugvirkjafélag Íslands, Flugfreyjufélag Íslands og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa lýst yfir stuðningi við Eflingu-stéttarfélag í baráttu Ólafar Helgu Adolfsdóttur, trúnaðarmanns félagsins á Reykjavíkurflugvelli, sem var sagt upp störfum hjá Icelandair á ágúst, í miðjum kjaraviðræðum.

Félögin eru sammála um að uppsögnin sé aðför að uppsagnarvernd trúnaðarmanna, sem sé mikilvæg stoð til að tryggja stéttarfélögum vinnufrið í störfum í þágu félagsmanna.

Flugfreyjufélag Íslands minnir á sameiginlega yfirlýsingu Icelandair, Samtaka atvinnulífsins, Flugfreyjufélagsins og ASÍ frá því í september á síðasta ári, þar sem sammælst var um að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Með yfirlýsingunni gengust Icelandair og SA við því að framganga Icelandair síðasta sumar, þegar sem flugfreyjum og flugþjónum var sagt upp störfum í miðri kjaradeilu, hefði brotið í bága við samskiptareglur á vinnumarkaði. Félagið skorar á Icelandair að virða lög og reglur á vinnumarkaði og draga uppsögn Ólafar Helgu til baka. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV