Orðanna hljóman

Mynd með færslu
 Mynd: Tómas R Einarsson - Ávarp undan sænginni

Orðanna hljóman

08.10.2021 - 12:41

Höfundar

Á plötunni Ávarp undan sænginni syngur Ragnhildur Gísladóttir tíu ný lög eftir Tómas R. Einarsson við ýmis kvæði. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen:

Tómas R. Einarsson er með iðnustu hljómlistarmönnum íslenskum og eftir hann liggja tugir platna af ýmsum toga. Nýjasta plata hans státar af tíu smíðum sem hann semur við ljóð eftir hin ýmsu skáld en tema plötunnar eru hin gamalkunnu minni; ást, tregi og söknuður. Platan er í djössuðum latínstíl, formi sem Tómas þekkir upp á tíu, en meðspilarar hans eru þeir Ómar Guðjónsson á gítar, Davíð Þór Jónsson á píanó og hammond-orgel, Magnús Trygvason Eliassen á trommur og slagverk og svo spilar Tómas sjálfur á kontrabassann.

Þegar ég frétti af þessari plötu fyrst hugsaði ég: „Þetta getur ekki klikkað“ - og ég get staðfest að ég hafði rétt fyrir mér. Það er ekkert klikk í gangi hér. Þá vissi ég bara af tónhöfundi og söngkonu, hafði ekki fengið upplýsingar um meðspilarana frábæru. Byrjum bara þar. Á hljómi og hljóðfæraleik. Sko, bara það að hlusta á framvindu laganna, samleik allra þeirra sem plokka, lemja og slá er hreinn unaður. Enginn þessara spilara er „eðlilegur“ en hins vegar eru þeir ekki eðlilega góðir. Maður heyrir á 0.1 þegar trommuslag frá Magnúsi kemur inn, svo persónulegt og skapandi alltaf en um leið í fullkomnum samhljómi við meðreiðarsveinana. Davíð er þá alveg sérstakt fenómen, snillingur á alla lund og Ómar er sérkapítuli. Lögin, sem rúlla örugglega í þessu latíndjass-sniði, taka öll sem eitt á sig ofurmannlega tilvist einhvern veginn vegna aðkomu þessa meistara. Hvernig Ómar hvessir gítarinn, lætur hann skruða og ýlfra, hvernig hann virðist hreinlega missa gítarinn í gólfið á stundum – og allt er þetta satt og rétt í samhenginu.

Ragnhildur, Ragga, syngur svo lögin eins og sú sem valdið hefur. Þessi „dökki“ hljómur hennar, eins og Tómas hefur sjálfur lýst honum, fellur algerlega að ljóðunum og spilamennskunni. Það er eins og platan sé hjúpuð dökkleitum, styrkjandi blæ. Melankólísk værðarvoð í hljómaformi. Ljóðin koma úr ólíkum áttum, úr ranni Halldórs Laxness, Sigfúsar Daðasonar og Sveinbjörns I. Baldvinssonar svo einhverjir séu nefndir. Sjálfur semur Tómas einn texta. Lokalagið, „Ég sakna þín“, fjallar um dóttur hans, Ástríði, sem lést af slysförum fyrir ellefu árum. Virkilega áhrifaríkt lag – og texti. Og dóttir hans, Kristín Svava, á þá tvo texta og hefst platan á einum þeirra, þeim sem platan heitir eftir. Glúrinn kveðskapur úr fyrstu ljóðabók hennar, Blótgælum, hvar umfjöllunarefnið er þrúgandi þyngsl einstakra daga sem geta verið grámóskulegir og erfiðir. Snúnir. Hæfandi upphaf að plötu sem situr í melankólískum gír út í gegn en tekur um leið smekklega á fegurðinni sem býr líka í öllum þessum áskorunum sem skolar á land til okkar, hvort sem við erum tilbúin í þær eður ei.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Tómas R Einarsson - Ávarp undan sænginni

Tónlist

Eftir að glíma við þessi kvæði „mega forlögin taka mig“