Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lýsir alvarlegri stöðu á leikskólum

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Staðan í leikskólum Hafnarfjarðar er grafalvarleg og grípa þarf til aðgerða strax, að mati Verkalýðsfélagsins Hlífar. Illa gengur að manna leikskólana, veikindi eru algeng og mörg dæmi um að starfsfólk, sem árum saman hefur starfað á leikskólum bæjarins, hafi sagt upp og ráðið sig í sambærileg störf í öðrum sveitarfélögum.

Þetta kemur fram í bréfi sem Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, sendi á bæjarstjórn Hafnarfjarðar og tekið var til umfjöllunar í bæjarráði í vikunni. Í bréfinu kemur fram að verkalýðsfélagið hafi átt í samskiptum við bæjarstjóra og embættismenn vegna ástandsins í meira en ár en staðan nú sé orðin grafalvarleg. „Illa gengur að manna skólana, veikindi eru algeng, bæði langtímaveikindi og skemmri fjarvistir vegna veikinda. Mörg dæmi eru um að starfsfólk, sem hefur starfað árum saman í leikskólum hjá Hafnarfjarðarbæ, hafi sagt upp og ráðið sig í sambærileg störf í öðrum sveitarfélögum.“

Kjörin betri í nágrannasveitarfélögum

Í bréfinu eru tíundaðar nokkrar ástæður fyrir stöðunni. Í fyrsta lagi að samanburður kjara við nágrannasveitarfélög sé óhagstæður. Þannig sé starfsmönnum víða umbunað fyrir að matast með börnum. Það hafi áður tíðkast hjá Hafnarfjarðarbæ en var slegið af í kjölfar efnahagshrunsins og aldrei tekið upp aftur. Einnig hafi önnur sveitarfélög samið um sérstaka láglaunauppbót í síðustu kjarasamningum.  Þetta valdi því að starfsfólk leiti í önnur sveitarfélög eftir vinnu.

Í öðru lagi séu leikskólarnir undirmannaðir sem komi niður á gæðum þjónustu og heilsu starfsfólks. Allmörg dæmi séu þess að loka þurfi deildum og senda börn heim vegna undirmönnunar. Í raun hafi átt að loka deildum oftar en hafi ekki verið gert sem bæði ógnar öryggi barna og starfsfólks.

Ekki hrópað á torgum

Þá hafi Covid faraldurinn aukið á vandann. Sóttvarnaráðstafanir hafi aukið álag á starfsfólkið og í öllu tali um að umbuna framlínustarfsfólki vegna óeigingjarns starfs hafi leikskólastarfsfólk orðið útundan.

Í niðurlagi bréfsins segir: „Við höfum ekki hrópað á torgum, höfum einlæglega trúað því að vilji sé til þess að koma til móts við hógværar væntingar þessa láglaunahóps. Það er ljóst að það er sterk undiralda og þolinmæði hópsins er á þrotum. Það er því nauðsynlegt að gripið verði til aðgerða strax. Það dugar ekki að bíða fjárhagsáætlunar næsta árs í því sambandi.“

Magnús Geir Eyjólfsson