
Höggva sig í gegnum 85 ára gamlan skóg í Eyjafirði
„Þú getur lesið skógræktarsögu Íslands hérna,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga sem stendur vaktina í Vaðlareit og fylgist með að skógarhöggið fari allt fram eins og til er ætlast.
„Hér var bara allt sett niður“
„Hérna gerðu menn bara tilraunir 1936, þegar var byrjað að planta hérna, þá vissi enginn hvað þrifist í landinu. Hér var bara allt sett niður, sumt dó og sumt lifði og það sem lifði, á því byggir í rauninni skógæktarstarfið í dag.“ Og hann giskar á að um 30 trjátegundir sé að finna í Vaðlareit.
Opna tveggja kílómetra leið
Þetta flækir talsvert verkefni þeirra 11 skógarhöggsmanna, sem nú standa mestallan daginn í Vaðlareit og fella tré. Því þeir mega ekki fella hvaða tré sem er. En hér opnast um tveggja kílómetra leið eftir endilöngum Vaðlareit fyrir heitavatnslögn úr Vaðlaheiðargöngum að nýjum baðstað í skóginum - og fyrir nýjan göngu- og hjólreiðastíg.
Einvala lið skógarhöggsmanna
„Í þetta verkefni söfnuðum við saman mannskap alveg úr Reykjavík, Skagafirði, Akureyri og austur á Egilsstaði,“ segir Jón Heiðar Rúnarsson, eigandi Skógarmanna ehf.“
„Af hverju þurfið þið svona mikinn mannskap í þetta?“
„Þetta er bara verkefni sem lá svolítið á. Svo við bara hringdum út alla okkar vini og félaga sem eru góðir í þessum bransa og söfnuðum þeim saman hérna. Við ætlum að klára þetta á tveimur vikum.“
Um 130 tonn af efni í borðvið og eldivið
Í þessu skógarhöggi falla til um 130 tonn af trjábolum sem ýmist verða notaðir í borðvið eða eldivið. Jón Heiðar segir annað fella skóg við þessar aðstæður, en venjulega séu þeir að grisja skóg þar sem þeir velji tré og skilji eftir. „Núna erum við í rauninni að opna bara beina leið í gegnum skóginn. Og þetta verður rosalega fallegt, vegna þess að fjölbreytnin er svo mikil hérna í kringum stíginn,“ segir hann.