Hafa rannsakað hoppu­kastala­slysið í 99 daga

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á hoppukastalaslysi á Akureyri stendur enn yfir, rúmum þremur mánuðum eftir að slysið varð. Eitt barn, sex ára, slasaðist mikið og var sent á gjörgæsludeild Landspítalans með fjöláverka.

Málið enn í rannsókn

Lögreglan á Norðurlandi eystra vill ekki veita neinar upplýsingar um gang rannsóknar embættisins á slysi sem varð í hoppukastala á Akureyri 1. júli. Arnfríður Arngrímsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, segir í samtali við fréttastofu í dag að málið sé enn í rannsókn. Hún vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið eða gang rannsóknarinnar.

Lögreglurannsókn frá 1. júlí

Tíu börn fengu aðhlynningu á Sjúkrahúsinu á Akureyri eftir hátt fall úr hoppukastalanum sem tókst á loft við Skautahöllina á Akureyri 1. júlí. Börnin voru útskrifuð eftir meðhöndlun. Eitt barn, sex ára, slasaðist meira og var sent á gjörgæsludeild Landspítalans með fjöláverka. Lögreglurannsókn hófst þann sama dag.

Engar upplýsingar að fá um gang mála

Engar upplýsingar hafa borist frá lögreglunni um gang rannsóknarinnar frá 16. júlí þegar tilkynning birtist á Facebook-síðu lögreglunnar. Þar sagði að rannsókn málsins væri í fullum gangi og að málið  væri yfirgripsmikið.