Vanda: „Við ætlum að laga þetta“

Mynd: RÚV / RÚV

Vanda: „Við ætlum að laga þetta“

07.10.2021 - 20:35
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands á ekki að skipta sér af vali á leikmönnum í landslið. Þetta sagði Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ  í Kastljósi í kvöld. Hún sagði mikilvægt að standa með þolendum kynferðisbrota og -áreitni, sjálf hefði hún orðið fyrir áreitni í íþróttum. Mikilvægt sé að fagfólk komi að því að leysa þá stöðu sem upp er komin innan sambandsins.

Vanda var spurð um þá stöðu sem upp er komin eftir að liðsmenn karlalandsliðsins í knattspyrnu hafa verið ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi og -áreitni. „Þetta er tækifæri fyrir okkur til að gera sambandið og fótboltann ennþá betri og sterkari, þetta er risastór hreyfing með helling af börnum út um allt land sem elska fótbolta,“ sagði Vanda.

Hún sagði að bæði núverandi og fyrrverandi stjórn KSÍ fordæmdi allt ofbeldi. „Mér finnst mjög mikilvægt að við hlustum á þolendur,“ sagði hún. 

Hversu alvarlegum augum lítur þú á ásakanir kvenna um kynferðislegt ofbeldi af hálfu landsliðsmanna í knattspyrnu? „Mjög alvarlegum augum. Og þess vegna finnst mér svo jákvætt að fráfarandi stjórn setur af stað vinnu til að skoða vinnubrögðin og búa til nýjar reglur,“ sagði Vanda.

Það var einu sinni í lagi að klípa stelpur

Hún sagði mikilvægt að fagfólk kæmi að því að taka ákvarðanir um hvernig tekið yrði á þessum málum innan KSÍ. „Það er verið að vinna í málum, það mun koma skýr aðgerðaáætlun. Ég vil að þetta sé þannig; ef það er þolandi þarna úti sem hefur lent í einhverju þá á hann að vera öruggur með að  það verði hlustað á hann. Hann á að vera öruggur með að þetta fer inn í ákveðna aðgerðaáætlun sem er fyrirfram ákveðin og faglega unnin.“

Vanda sagði að samfélagið allt, þar með talið Knattspyrnusambandið, yrði að gera betur. „Það eru aðrir tímar. Þetta var einu sinni í lagi að klípa í stelpur og þaðan af verra - ég hef sjálf lent í þessu,“ sagði Vanda.  „Einhvernveginn hristi maður þetta af sér, en við erum sem betur fer komin á annan stað í dag.“

Tekurðu undir að það eigi að standa með þolendum ofbeldis? „Já og ég held að með því að búa til umgjörð utan um þessi mál sem er unnin af fagfólki - þá erum við að gera það.“

Vanda sagði að ef þetta yrði ekki gert, þá myndi KSÍ ekki vinna trúverðugleika sinn til baka. „Ég allavegana sé það ekki,“ sagði hún.

Háværar kröfur hafa verið uppi um að Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, víki. Vanda sagði engin áform um það á þessari stundu. Hún sagði mikilvægt væri að gleyma ekki öllu því jákvæða sem KSÍ hefur gert í gegnum tíðina. „Við megum ekki fara í eitthvað svartnætti með þetta,“ sagði Vanda. „Við ætlum að laga þetta. Það er bara þannig, við munum laga þetta.“

Finnst þér að landsliðsþjálfarinn og aðstoðarmenn hans eigi að vera einráðir um að velja í liðið? „Já, mér finnst það. Mér finnst ekki að stjórnin eigi að skipta sér af vali þjálfara. Sem fyrrveranda þjálfara finnst mér það, engin spurning. En það gæti verið í framtíðinni einhverjar reglur sem við öll í íþróttahreyfingunni þurfum að fylgja. En það er ekki það sama og stjórn sé að skipta sér af.“

Kastljós kvöldsins má sjá hér að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Vanda: „Verður ærið verkefni en ég er bara spennt“

Fótbolti

Eigi ekki að vera í landsliði ef mál eru til skoðunar

Innlent

Vanda segir erfið verkefni framundan

Innlent

Lögreglan rannsakar mál tengt tveimur landsliðsmönnum