Þakplötur fjúka í norðanhvelli á Siglufirði

07.10.2021 - 19:41
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Ingvar Erlingsson - RÚV
Norðaustan hvassviðri er nú á Tröllaskaga. Þakplötur og þakpappi er að fjúka af tveimur húsum.Björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Strákum eru að reyna að hemja lausamuni.

Ingvar Erlingsson, björgunarsveitarmaður á Siglufirði segir að það hafi hvesst mjög skyndilega á Siglufirði. Hann var í miðjum klíðum við björgunaraðgerðir þegar fréttastofa náði af honum tali. Hann segir að þakplötur séu að fjúka af einu húsi, og pappi af öðru húsi, en þar hafa viðgerðir staðið yfir undanfarið.

Samkvæmt vef Veðurstofunnar voru austan 20 metrar á sekúndu á Sauðanesvita klukkan 18 í kvöld. Áfram er spáð hvassviðri á þessum slóðum í kvöld. 

Uppfært 21:41. Ingvar Erlingsson segir í samtali við fréttastofu að það hafi heldur dregið úr vindi eftir því sem liðið hefur á kvöldið. Björgunarsveitarmenn eru að bíða eftir að lægi til að komast upp á þak eitt í bænum til að hefta frekara fok. Að öðru leiti hefur ekki þurft að fara í frekari útköll vegna hvassviðrissins. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Ingvar Erlingsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Ingvar Erlingsson - RÚV
bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV