Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríki kaupir fótboltalið

A general view of Newcastle United supporters waiting outside the stadium for news of the latest developments in the sale of the club to the Saudi sovereign wealth fund for 300 million-pound ($408 million) takeover in Newcastle Upon Tyne, England Thursday Oct. 7, 2021. (AP Photo/Scott Heppell)
 Mynd: AP

Ríki kaupir fótboltalið

07.10.2021 - 14:05
Félag tengt krónprinsi Sádí-Arabíu og einum auðugasti maður veraldar, Mohammed bin Salman, er við það að festa kaup á hinu fornfræga knattspyrnuliði Newcastle United á Englandi.

Mohammed er sagður hafa náð samkomulagi við milljarðamæringinn Mike Ashley, eiganda félagsins, um kaupin og það eina sem vantar er að enska úrvalsdeildin veiti samkomulaginu blessun sína. Það gæti gerst síðar í dag.

Fyrstu fregnir að tilraunum Sádí-Araba til að kaupa félagið bárust fyrir um einu og hálfu ári, en Guardian greinir frá því að samþykki úrvalsdeildarinnar hafi þá meðal annars strandað á því að katarsja sjónvarpsstöðin beIN, sem á sjónvarpsréttinn á enska boltanum í landinu, hafi verið bönnuð í Sádí-Arabíu. 

Nú mun það mál vera leyst og eins hefur verið lögð fram bindandi yfirlýsing um að sádí-arabísk stjórnvöld muni ekki skipta sér af rekstri félagsins.

Stuðningsmenn félagsins hugsa sér margir gott til glóðarinnar. Mike Ashely hefur ekki verið í náðinni hjá stuðningsmönnum, sem þykir ris félagsins hafa verið heldur lágt síðustu misserin og að eigandinn hefði mátt eyða meiri peningum. Það ætti ekki að vera vandamál með bin Salman innanborðs.

Auðævi konungsfjölskyldunnar, sem situr á öllum olíuauð heimalandsins, eru metin á tugi milljarða dollara. Olíusjóðurinn, Public Investment Fund, er sagður leggja fram 80% kaupverðsins, sem er um 300 milljónir punda.

Ef af kaupunum verður myndi Newcastle vafalítið skipa sér innan fárra ára í hóp með Manchester City og París Saint-German. Stjörnum prýdd lið í olíueigu sem virðast geta keypt hvern þann leikmann sem hugurinn girnist (en vinna ekki Meistaradeildina).

epa07193215 Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman poses for a photo with Tunisian President Beji Caid Essebsi (not pictured) at the Presidential castle of Carthage, Tunis, Tunisia, 27 November 2018. Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman, aka MbS, arrived in Tunisia as part of his regional tour before attending the G20 summit in Argentina.  EPA-EFE/STRINGER
Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mohammed bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu.

Mannréttindasamtök ósátt

Mannréttindasamtök eru ekki par hrifin af fyrirhuguðum kaupum og skyldi engan undra. Konungsfjölskyldan í Sádí-Arabíu hefur ekki verið þekkt fyrir virðingu sína fyrir mannréttindum.

Ströng sharíalög eru í gildi í landinu og fólki, einkum konum, refsað miskunnarlaust fyrir það, sem varla teldust glæpir hér á Vesturlöndum. Trúleysi er lagt að jöfnu við hryðjuverk og refsað fyrir með svipuhöggum og þungum fangelsisdómum. Samkynhneigðir geta átt von á dauðadómi og landið er þekkt vin þeirra sem stunda þrælasölu.

Þá er skemmst að minnast morðsins á blaðamanninum Jamal Kashoggi í Istanbul árið 2018, sem sannað þykir að krónprinsinn hafi fyrirskipað.

 En sumar konur mega allavega keyra.

Mannréttindasamtökin Amnesty International gagnrýna ensku úrvalsdeildina harðlega fyrir að láta sér einu sinni detta í hug að samþykkja kaupin. Samtökin vekja athygli á því að í svokölluðum „eigendaskilyrðum“ sem deildin setur eigendum félaga, sé ekki minnst einu orði á mannréttindi.

„Rétt eins og í Formúlu 1, hnefaleikum, golfi og tennis, þá er knattspyrnulið vinsæl leið til að lappa upp á laskaða ímynd lands eða einstaklings,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. „Enska úrvalsdeildin þarf að átta sig betur á því hvernig þessi ímyndarþvottur virkar og herða reglur sínar,“ segir enn fremur.