Mohammed er sagður hafa náð samkomulagi við milljarðamæringinn Mike Ashley, eiganda félagsins, um kaupin og það eina sem vantar er að enska úrvalsdeildin veiti samkomulaginu blessun sína. Það gæti gerst síðar í dag.
Fyrstu fregnir að tilraunum Sádí-Araba til að kaupa félagið bárust fyrir um einu og hálfu ári, en Guardian greinir frá því að samþykki úrvalsdeildarinnar hafi þá meðal annars strandað á því að katarsja sjónvarpsstöðin beIN, sem á sjónvarpsréttinn á enska boltanum í landinu, hafi verið bönnuð í Sádí-Arabíu.
Nú mun það mál vera leyst og eins hefur verið lögð fram bindandi yfirlýsing um að sádí-arabísk stjórnvöld muni ekki skipta sér af rekstri félagsins.
Stuðningsmenn félagsins hugsa sér margir gott til glóðarinnar. Mike Ashely hefur ekki verið í náðinni hjá stuðningsmönnum, sem þykir ris félagsins hafa verið heldur lágt síðustu misserin og að eigandinn hefði mátt eyða meiri peningum. Það ætti ekki að vera vandamál með bin Salman innanborðs.
Auðævi konungsfjölskyldunnar, sem situr á öllum olíuauð heimalandsins, eru metin á tugi milljarða dollara. Olíusjóðurinn, Public Investment Fund, er sagður leggja fram 80% kaupverðsins, sem er um 300 milljónir punda.
Ef af kaupunum verður myndi Newcastle vafalítið skipa sér innan fárra ára í hóp með Manchester City og París Saint-German. Stjörnum prýdd lið í olíueigu sem virðast geta keypt hvern þann leikmann sem hugurinn girnist (en vinna ekki Meistaradeildina).