Armin Laschet, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi, bauðst í dag til að segja af sér, að því er Reuters fréttastofan greindi frá síðdegis. Flokkurinn laut í lægra haldi fyrir Jafnaðarmönnum í þingkosningum á dögunum.
Laschet er arftaki Angelu Merkel, fráfarandi kanslara í forystusæti Kristilegra demókrata. Hann og Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmanna, tilkynntu báðir eftir kosningarnar að þeir ætluðu að reyna að mynda meirihlutastjórn á þýska sambandsþinginu með Frjálslyndum demókrötum og Græningjum. Í gær tilkynnti Scholz síðan að formlegar viðræður um stjórnarmyndun hæfust í dag og að hann yrði kanslaraefni nýju stjórnarinnar.