Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um 900 skjálftar við Keili í dag en allir undir þremur

Myndin sýnir vel svæðið milli Keilis og Fagradalsfjalls (lengst til vinstri) þar sem flestir skjálftarnir eiga rætur. Sést líka vel yfir á Reykjanesbæ.
Myndin er tekin frá Spákonuvatni sunnan Trölladyngju.
 Mynd: Einar Páll Svavarsson
Enn skelfur jörð við Keili en skjálftarnir eru þó færri í dag en undanfarið. Síðasta sólarhring mældust um 900 skjálftar en þeir voru um fimmtánhundruð sólarhringinn þar á undan. Enginn jarðskjálfti hefur mælst yfir þremur í dag, stærsti skjálftinn var 2,5 klukkan hálf sex í morgun.

Engin merki eru um breytingar á jarðskorpunni á slóðum skjálftanna. Nýjustu gervitunglagögn af svæðinu við Keili sýna engin skýr merki um að kvika sé að brjóta sér leið til yfirborðs.

Að því er fram kemur í frétt á vef Veðurstofunnar sjást engin merki um breytingar á jarðskorpunni. Það er þó ekki sagt útiloka að kvika sé á hreyfingu en hún sé á það miklu dýpi að hún sést ekki á gögnum úr gervitunglum.

„Ef kvika er að safnast fyrir, þá er hún ekki í miklu magni og á talsverðu dýpi, eða meira dýpi en sást í aðdraganda gossins í mars”, segir Michelle Parks sérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hún hefur unnið að greiningu gagnanna ásamt Vincent Drouin. Áfram verður fylgst náið með þróun skjálftavirkninnar við Keili.