Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Það er mikið ergelsi í fólkinu“

06.10.2021 - 08:20
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði, segir að það hafi vantað upp á upplýsingaflæði til íbúa áður en gripið var til rýminga á mánudaginn vegna skriðuhættu. Rýmingu verður ekki aflétt fyrr en eftir helgi því það er spáð meiri rigningu á morgun.

„Fólk er náttúrulega bara mjög hvekkt. Kannski sérstaklega af því, jú það er búið að rigna og spáð rigningu en það er svo sem ekki verið að rýma vegna rigningar heldur út af stórum fleka sem er í skriðusárinu sem að fór ekki niður. Þannig að það er ný stærð í öllu þessu vandamáli sem við erum með, það er ekki bara veðurtengt heldur gamlar leifar af skriðinu sem hanga þarna yfir okkur líka og það var eitthvað sem við vorum ekki alveg búin að gera ráð fyrir þannig að það er mikið ergelsi í fólkinu að það skuli líka bætast ofan á þessa vá sem við höfum þarna í fjallinu. En það er mikið fylgst með þessu og góður fundur með Veðurstofunni í gær þar sem farið var vel yfir hvernig þeir eru að mæla og fylgjast með þessu og það var rosalega gott en hefði eiginlega mátt gerast fyrr,“ sagði Davíð í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun.