Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Telja sig hafa reist nægilega háar girðingar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Stjórnendur Seðlabankans telja að snörp hækkun fasteignaverðs á undanförnum misserum sé tímabundin og að þær girðingar sem bankinn hefur reist muni kæla markaðinn.

Ekkert lát er á hækkun fasteignaverðs og er það fyrst og fremst sú hækkun sem hefur valdið því að verðbólgan, sem nú mælist 4,4 prósent og er umtalsvert yfir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði bankans, hefur reynst þrálátari en vonir stóðu til. Í það minnsta er verðbólga án húsnæðisverðs við markmiðið.

Á kynningarfundi peningastefnunefndar gerðu Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri, grein fyrir 0,25 prósenta stýrivaxtahækkun sem boðuð var i morgun. Þær spurningar sem bornar voru upp á fundinum beindust að fasteignamarkaðinum og hækkun hrávöruverðs á heimsvísu.

Ásgeir og Rannveig eru sammála um að hækkun fasteignaverðs sé tímabundin og að aðgerðir Seðlabankans muni á endanum hægja á hækkunum. Vísa þau til ákvarðana fjármálastöðugleikanefndar um að setja þak á hlutfall veðlána og greiðlubyrði, sem og nýlegra vaxtahækkana.

Eftirspurn er langt umfram framboð og eru eignir bæði að seljast yfir ásettu verði og á mettíma. Ásgeir segir að fasteignaverð komi fljótt inn í vísitölu neysluverðs en bætti við að það fari líka fljótt út. Telur hann að áhrif fasteignaverðs á vísitöluna deyji út þegar kemur fram á næsta ár.

Þau Ásgeir og Rannveig eru einnig sammála um að há verðbólga á alþjóðamörkuðum sé tímabundin. Framleiðsluhnökrar vegna Covid hafi reynst þrálátari en gert var ráð fyrir, bæði vegna hraðrar útbreiðslu nýrra afbrigða veirunnar í sumar og að bólusetning í mikilvægum framleiðslulöndum sé skammt á veg komin. Hvernig Seðlabankinn bregðist við þessum verðhækkunum veltur á því, segir Rannveig,  hvaða áhrif þær hafa á verðbólguvæntingar.