Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Svekkjandi úrslit eftir hörkuleik í Kópavogi

Mynd með færslu
 Mynd: - - Youtube

Svekkjandi úrslit eftir hörkuleik í Kópavogi

06.10.2021 - 20:49
Breiðablik mætti Frakklandsmeisturum PSG í fyrsta leið riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Uppselt var á leikinn, 1412 áhorfendur voru í sæti á vellinum í kvöld, og aldrei hafa fleiri mætt á kvennaleik í Kópavogi.

Leikurinn í kvöld markaði ákveðin þáttaskil í fótbolta á Íslandi en Breiðablik er fyrsta íslenska liðið til að keppa í riðlakeppni Meistaradeildar í fótbolta. Áður fyrr var leikið með útsláttarfyrirkomulagi en nú var ákveðið að spilað yrði í riðlakeppni líkt og þekkist í Meistaradeild karla.

PSG hafði betur í baráttunni við Lyon um Frakklandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð og því um ógnarsterkt lið að ræða. Blikar gáfu þó ekkert eftir og snemma leiks nældi Hildur Antonsdóttir í aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig PSG. Agla María Albertsdóttir tók spyrnuna sem fór rétt framhjá markinu. Á 17. mínútu komst PSG í 1-0. Markið skoraði Lea Khalifi eftir glæsilegt spil frönsku meistaranna. Blikar sóttu hins vegar stíft og áttu margar góðar tilraunir í fyrri hálfleik en þær frönsku voru með forystuna þegar gengið var til búningsklefanna í hálfleik. 

Blikakonur voru hreinlega óheppnar að ná ekki að skora mark í leiknum því færin voru fjölmörg og Blikar síst lakara liðið. Þegar líða tók á síðari hálfleikinn fór að draga af heimakonum en þær héldu sóknarlínu PSG í skefjum allt þar til á 89. mínútu. Fyrirliðinn Grace Geyoro fékk þá boltann úti hægra megin, kom sér í gott skotfæri og skoraði framhjá Telmu Ívarsdóttir markverði Breiðabliks. Tveimur mínútum síðar var flautað til leiksloka og 2-0 reyndust lokatölur. 

PSG er því komið með þrjú stig í B-riðli Meistaradeildarinnar, líkt og Real Madrid, sem fyrr í kvöld vann úkraínska liðið Kharkiv 1-0. Blikar mæta Real Madrid á Spáni í næstu viku.