Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Óljóst hvað verður gert við hvalhræin við bæjardyrnar

06.10.2021 - 21:25
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Ekki hefur verið ákveðið hvernig eigi að farga tugum grindhvalshræja sem liggja í fjörunni í Árneshreppi á Ströndum. Teymi frá Hafrannsóknastofnun tók sýni úr dýrunum í dag.

Hvalirnir birtust í fjörunni í Melavík í Árneshreppi á laugardaginn. Sumir voru með lífsmarki þegar þeir komu að landi, en drápust fljótlega. Ekki er vitað hvað varð til þess að grindhvalavaðan sem telur meira en fimmtíu dýr gekk á land. Teymi frá Hafrannsóknastofnun kom norður á Strandir og tók sýni úr dýrunum í dag. 

„Við tökum sýni úr spikinu, vöðvunum, erfðaefnasýni, augu og tennur,“ segir Valerie Chosson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.  

Sýnin eiga að gefa upplýsingar um líkamlegt ástand dýranna þegar þau drápust. 

„Með erfðafræðigreiningu reynum við að sjá hve skyld dýrin eru og hvernig vaðan er uppbyggð. Af augum og tönnum getum við lesið aldur skepnunnar. Þykkt spiksins veitir einnig upplýsingar um heilsufar hvalsins.“ 

Ekki ljóst hvað skal gera við hræin

Hvalshræin liggja í fjörunni rétt við sauðfjárbúið á Melum, eru nú byrjuð að rotna og lyktin orðin megn. Ekki er búið að finna fram úr því hvort eða þá hvernig eigi að farga hræjunum. En síðan á laugardaginn hafa þau dreifst um fjörur í Árneshreppi. 

Umhverfisstofnun skoðar nú valkosti í samráði við landeigendur og Árneshrepp. Þar kemur helst til greina að grafa hræin í fjörunni, en væru þau dregin á haf út væru allar líkur á að þeim myndi skola á land annars staðar.

Þrátt fyrir að teljast smáhveli þá eru grindhvalir fyrirferðarmiklir; tarfurinn getur orðið allt að þrjú og hálft tonn og kýrin tæp tvö.

„Við viljum endilega losna við þá. Þetta skapar bara stórhættu fyrir fugl og annað af grútnum úr þessu. Það er mikið af æðarfugli í þessu landi,“ segir Björn G. Torfason, ábúandi á Melum. 

Og lyktin er ekki góð. 

„Nei, hún er byrjuð að versna og á eftir að versna. Þannig það þyrfti helst að gera þetta sem fyrst.“